þriðjudagur, febrúar 28, 2006

Saltkjöt og baunir, túkall.......

Ég man vel eftir því þegar ég var lítil stelpa á Akranesi að við krakkarnir rifum okkur á fætur fyrir allar aldir til að geta náð ömmu minni og gamalli frænku minni í rúminu og bollað þær með litfögrum bolluvendi sem okkur hafði verið gefinn. Að launum fengum við rjómabollur og heitt súkkulaði. Þetta var mjög spennandi í augum okkar krakkanna og mér finnst synd að þessi siður skuli vera aflagður þótt hann sé kominn frá Danmörku. Á öskudaginn var verið með ofurskrautlega öskupoka sem mamma hafði hjálpað okkur að sauma og þeir voru síðan hengdir á fólk þegar það uggði ekki að sér. Aðalgrínið var að sjá fullorðna fólkið labba um með öskupoka á bakinu. því miður er þessi siður líka á undanhaldi en þó sá ég nokkur börn með öskupoka í íþróttahúsinu í dag og voru þau mjög spennt yfir grímuballinu sem á að halda þar á morgun. Ég er satt að segja mjög fegin því að vera í fríi á morgun.

Í gær fór ég í gönguferð með henni Erlu Harðar. Hún er þvílíkur göngugarpur að ég átti í mesta basli við að fylgja henni. Allavegana komst ég að því að ég var allt of mikið klædd og var farin að rífa af mér spjarirnar (úlpuna) í lok göngu. Við enduðum síðan í sundlauginni og þetta var alveg æðislegt. Við ætlum aftur á morgun. En í kvöld ætla ég að borða saltkjöt og baunir eins og sönnum Íslending sæmir. Saltkjöt og baunir, túkall................

sunnudagur, febrúar 26, 2006

Langafasta

Bolludagur er mánudagur á tímabilinu 2. febrúar og 8. mars, þ.e 7 vikur fyrir páska. Langafasta byrjar á miðvikudegi og algengt var að menn borðuðu ekki kjöt síðustu tvo dagana fyrir lönguföstu til þess að venja sig að léttu mataræði. Í þjóðveldislögum var það meira að segja bannað að borða kjöt þessa síðustu tvo daga fyrir föstuna. Bolluát og flengingar bárust til Íslands seint á 19. öld. Siðurinn að vekja fólk með flengingu er kominn hingað til lands frá Danmörku. Hann á sér líklega kaþólska fyrirmynd í táknrænum hirtingum á öskudag. En vöndurinn minnir líka á stökkul sem notaður var til að dreifa vígðu vatni á söfnuði í föstubyrjun. Flengingar og bolluát bárust til Íslands á 19. öld og virðast danskir og norskir bakarar hafa átt hlut að máli. Bolludagur er hins vegar talið vera íslenskt heiti á deginum. Siðurinn að slá köttinn úr tunnunni en enn í heiðrum hafður sumstaðar, ásamt fjöldagöngum barna í grímubúningum.
fasta: Í kaþólskum sið var ákveðinn tími ársins ekki leyft að borða kjöt. Það var kölluð fasta.
langafasta: Fyrir páska mátti ekki borða kjöt í 7 vikur, þessi tími var kallaður langa fasta vegna þess hversu langur tími þetta var.

1. í bolludegi

Þá er kominn sunnudagur 26. febrúar. Í dag á hún Kristín Ýr mín afmæli, er 32 ára í dag. Mér finnst ekki svo langt síðan hún var lítil trítla sem var frekar uppátækjasöm en alltaf voða góður krakki. En það hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan þá og nú á hún sjálf tvö börn og býr í Mosfellsbænum með uppáhalds tengdasyni mínum honum Jónasi Bjarna. Kristín Ýr til hamingju með daginn.

Ég fór í bakaríið fyrir níu í morgun og keypti bollur í tilefni af bolludeginum sem er á morgun. Ég er löngu hætt að baka bollur, ég hef ekki gert það síðan ég skildi fyrir 10 árum. Best er að kaupa þær og styrkja bakaríið í leiðinni. Síðan horfði ég á 50 km skíðagöngu karla sem er lokagrein vetrarólynpíuleikanna í skíðagreinunum. Það var mjög spennandi og ótrúlegt að eftir tæplega 50 km gátu keppendur sekið til fótanna (skíðanna) og hreinlega hlaupið á skíðunum í mark. Þvílík þrekraun!!

Í gærkvöldi var vörutalning í Bónus og er það fjáröflun fyrir okkur Lionskonur í Stykkishólmi. Ég taldi frá klukkan 19 til 22 og þá fór ég heim. Er að hugsa um að skella mér í sund á eftir í góða veðrinu og svo er vinna á morgun að vanda.....

fimmtudagur, febrúar 23, 2006

Sætur sigur

Jæja þá er best að deila fréttunum með ykkur!! Við unnum Njarðvíkinga 54-51 í æsispennandi leik þar sem varnarleikurinn var í fyrirrúmi hjá báðum liðum eins og stigaskorið segir til um. Þetta var sætur sigur og vonandi vinnum við Skallagrím á sunnudagskvöldið líka. Góða nótt.

Og meira fjör.....

Það eru aldeilis breytingar í veðráttunni þessa dagana. Í gær var kolbrjálað veður, ofsarok og úrhellisrigning og varla stætt. Ég er ekki að ýkja, en það rigndi hreinlega inn til okkar þar sem við sátum í gæslunni og mesta vinnan var að hlaupa með fötur til að setja undir lekana í íþróttamiðstöðinni og vinda tuskur en ekki í gæslu því eins og gefur að skilja voru ekki margir gestir í sundlauginni þann daginn. Svo virðist sem veðurfarið hafi hlaupið í úrvalsvísitöluna því hún snarlækkaði og hlutabréf í íslenskum fyrirtækjum sömuleiðis. Í dag er svo allt annað upp á teningnum, einmunablíða, sól og logn og Hólmurinn skartar sínu fegursta. Aðsóknin í laugina góð og úrvalsvísitalan hækkaði um þrjú og hálft prósentustig af einskærri ánægju með veðrið. Þá hækkuðu hlutabréf í síslenskum fyrirtækjum í samræmi við það. Ég tók þá ákvörðun í dag að selja þessi fáu hlutabréf sem ég á og setja gróðann af þeim inn á öruggan reikning. Ég treysti ekki að íslenski hlutabréfamarkaðurinn hækki mikið meira í bili en hef svona frekar á tilfinningunni að hann lækki umtalsvert á næstu vikum og mánuðum. Ætla að taka andvirði höfuðstólsins og setja í erlendan hlutabréfasjóð hjá kb-banka og sjá til. Svo er stórleikur í körfuboltanum í kvöld, Snæfell og Njarðvík eigast við. Verður gaman að geta farið sem áhorfandi og setið i rólegheitum og notið leiksins en vera ekki á hlaupum í vinnunni. Fræði ykkur í kvöld um hvernig gekk svo áfram Snæfell................

þriðjudagur, febrúar 21, 2006

Þótt hann rigni, þótt hann digni...

Á þessum drottins degi rignir hér eldi og brennisteini og hitastigið er ótrúlegt. Það er 10 stiga hiti eins og er. Ég held að veðurfarið hljóti að hafa farið eitthvað farið árstíðavilt, þetta veðurfar á að vera snemma á vorin en ekki um miðjan vetur.Nema vorið sé svona snemma á ferðinni en ég hef nú ekki trú á því. Ég fór í blóðprufur í morgun, það á víst að athuga hvort allt sé eins og það á að vera því þessi slappleiki og ónot sem hafa hrjáð mig eru ekki beint spennandi. Ekkert hefur fundist nema að blóðþrýstingurinn er allt og hár og er ég að fara á lyf út af því. Verð líka að fá mér mælir og mæla blóðþrýstinginn tvisvar á dag. Kannski er blóðþrýstingurinn þetta hár vegna komandi kosninga því óneitanlega kominn kosningahugur í mig. Ég fór reyndar ekki á fundinn hjá Sjálfstæðismönnum og óháðum en hann var haldinn í gærkvöldi. Var hann vel sóttur og þar var birtur framboðslisti til bæjarstjórnar og er ég virkilega ánægð með hann. Allir sem eru á honum eru virkilega hæfir einstaklingar og hlakka ég til að fá að leggja þeim lið í kosningabaráttunni. Það verður mikil vinna hjá þessu fólki sérstaklega vegna þess að þrír af núverandi bæjarfulltrúum gefa ekki kost á sér lengur. En svona gengur þetta í stjórnmálunum, það verða alltaf mannaskipti endrum og sinnum. Nýjir vendir sópa best segir máltækið og veit ég að “listafólkið” okkar lætur ekki sitt eftir liggja. Það eru jú alltaf sömu áherslurnar hjá öllum flokkum í svona litlu bæjarfélagi og er þetta frekar kosning um menn frekar en málefni. Ég trúi því að minn flokkur, Sjálfstæðisflokkurinn, sé með bestu mennina og vil ég veg hans sem mestan.

mánudagur, febrúar 20, 2006

Eurovision

Þá er þessi helgin afstaðin og ég ligg lasin aftur!! Vaknaði með þvílíkan höfuðverk og beinverki klukkan sex í morgun. Átti að mæta í vinnu klukkan sjö og skellti mér í sturtu til að reyna að hressa mig við en ekkert dugði. Er búin að sofa síðan og mér finnst ég heldur vera að hressast. Vonandi hristi ég þetta af mér fljótt.

Það var annars nóg að gera hjá okkur í lauginni, ég held bara svei mér þá að flestir gestirnir hafi verið fólk utan af Nesi, sem kemur og verslar í Bónus og fer í sund á eftir. Mér finnst alveg frábært að sjá hvað margir af Grundfirðingum og Ólsurum nú og líka Söndurum, best að gleyma nú engum, koma og nýta sér þessa frábæru aðstöðu sem er hjá okkur í Hólminum.

Svo kórónaði nú helgina söngvakeppni Sjónvarpsins sem var virkilega flott. Kynnarnir, þau Brynhildur og Garðar voru öll að koma til og ef keppnin hefði verið tveimur þáttum lengri þá hefðu þau verið orðin nokkuð góð. Úrslitin komu ekki á óvart, ég meira að segja kaus Sylvíu Nótt og lagið “Til hamingju Ísland”, og rökin fyrir því voru að þetta var eina lagið eftir forkeppnina sem ég mundi laglínuna úr. Hvort hún skili okkur einhverju í Aþenu í vor er svo annað mál en mér finnst allt í lagi að hrista aðeins upp í keppninni. Æi, nú er ég aftur komin með kúndrandi hausverk svo ég ætla að drífa mig upp í rúm.........

föstudagur, febrúar 17, 2006

Fráhvarfseinkenni

Mikið vildi ég að ég væri að fara í bæinn yfir helgina!! Það er afmælisveisla hjá Andra Frey, hann er sjö ára í dag. Hugsa sér hvað tíminn flýgur áfram, mér finnst eins og það hafi verið í gær sem hann var með bleyju, tja eða kannski í fyrradag. En það verður afmælisveisla hjá Kristínu Ýr og hún gerir heimsins bestu kökur og smárétti, mammi mamm. En svona er lífið stundum, ég verð í þess stað að mæta og sinna gestum íþróttamiðstöðvarinnar þar sem það er nú einu sinni vinnan mín. En Ég hlakka til að koma til Reykjavíkur í byrjun mars, hef ekki komið í tvo mánuði og er eiginlega komin með frákvarfseinkenni. Væri alveg til í smá djamm og skoða skemmtistaðina.......

Annir á Þorra

Það er búið að vera svo mikið að gera hjá mér að ég hef ekki mátt vera að því að blogga. Ég hef verið að vinna tvöfalt og er það alveg hægt dag og dag en mikið verður maður þreyttur. Mér skilst að við fáum inn nýjan starfsmann eftir mánaðarmótin, hún Sara Sædal ætlar að byrja hjá okkur. Hún er fín stelpa, skemmtileg og dugleg og krakkarnir þekkja hana vel og bera virðingu fyrir henni því hún er að þjálfa körfu og frjálsar íþróttir hjá nokkrum flokkum. Þá vonandi verður ástandið í íþróttahúsinu eðlilegt aftur.

Það var svo hryllilega kalt og hvasst í gær og fyrrakvöld að útilauginn kólnaði niður og í gær var hún komin niður í tæp 23 stig.(Á að vera 29-30) Hólmarar eru mikil hreystimenni, því bæði börn og fullorðnir létu sig hafa það og fóru í sund með það að leiðarljósi að það sem ekki dræpi mann, herti mann. Ég get samt sagt ykkur það í trúnaði að enginn stoppaði lengi og enginn þeirra dó.

Á sunnudaginn brestur á einn “blómabúðardagurinn” enn. Fyrir mína parta finnst mér ákaflega gaman af því að fá gjafir frá þeim sem mér þykir vænt um en ég legg samt til að við höldum okkur við okkar íslensku daga, s.s. bóndadag og konudag og sleppun Valentinusardeginum. Við þurfum ekki að apa allt eftir öðrum.

Það er greinilegt að tekið er að líða að kostningum. Maður sér fólk funda á hinum ýmsu stöðum jafnvel í íþróttahúsinu því kennararnir sumir hverjir eru greinilega pólutískt þenkjandi og jafnvel “listamenn”.Búið er að auglýsa fundi hjá Sjálfstæðismönnum og óháðum og einnig hjá hinni samsuðunni sem soðin var saman til þess að reyna að fella sjálfstæðismenn. Ég hef nú ekki trú á því að þeir hafi erindi sem erfiði en vaður veit samt aldrei. Það er samt spennaandi að vita hvaða fólk velst á listana og ég vona bara að mínir menn og konur “rústi þessu” eins og börnin segja.

Elsku stelpan hún Dóra Lind var að klukka mig og þó að Drífa hafi gert það í haust verð ég víst að reyna. Hér kemur æfiágripið ásamt fleiru.

     Fjögur störf sem ég hef unnið um æfina:
     
  • Skrifstofustjóri og ritari á fasteignasölu

  • Ritari hjá lögfræðing SÍT

  • Kokkur á flóabátnum Baldri

  • Sundlaugarvarsla

Fjórir staðir sem ég hef búið á um æfina:

  • Akranes

  • Grundarfjörður

  • Reykjavík

  • Stykkishólmur

Fjórar bíómyndir sem ég gæti horft á aftur og aftur:

  • Silent of the lamb

  • Zorro

  • Run away bride

  • The things about Mary

Fjórir sjónvarpsþættir sem mér líkar:

  • Law and order

  • Sjálfstætt fólk

  • Gray’s Anatomi

  • Bráðavaktin

Fjórar síður sem ég skoða daglega fyrir utan blogg:

  • mbl.is

  • stykkisholmur.is

  • bi.is

  • leit.is

Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum:

  • USA (mörgum sinnum)

  • Danmörk

  • Austurríki

  • Spánn, og mörg mörg fleiri

Fjögur matarkyns sem ég held upp á:

  • Fiskur í allavegana tilbrigðum

  • Lambakjörið okkar góða

  • grænmetissallat með fetaosti og fleira góðgæti

  • Sigin grásleppa

Fjórir staðir sem ég vildi heldur vilja vera á núna:

  • Á Florida í sólinni

  • Á Ítalíu á Olynpíuleikunum

  • Í Danmörku+

  • Í Wínarborg hjá Andreu vinkonu

Fjórir bloggarar sem ég klukka:

  • Því miður er búið að klukka alla bloggara sem ég þekki.

Takk fyrir mig og mína..
          

mánudagur, febrúar 13, 2006

Helgarupdate

Þá er kominn mánudagur og þetta yndislega helgarfrí á enda. Matarboðið hjá þeim Hemma, Gunna og Friðrik tókst með miklum ágætum, maturinn var mjög góður og þeir sýndu óvænta og skemmtilega takta sem ég átti allavega ekki von á. Rauðvínið var mjög gott og passaði vel með villibráðinni og síðan var setið og spjallað yfir kaffi og koniaci á meðan Hermann sýndi okkur sligdes-myndir úr Hólminum. Flestar vorun þær teknar fyrir um 35- 40 árum og var ótrúlegt að sjá hve mikið bærinn hefur breyst á þessum tíma. Margar þessar myndir eru sögulegar og ættu heima á safni. Við komum ekki heim fyrr en um þrjú leytið um nóttina og er búið að ákveða að endurtaka leikinn að ári á Sundabakkanum. Ég ætlaði að setja inn myndir af veislunni en myndavélin mín hafði eitthvað afstillst og myndirnar er ekki góðar en við sjáum nú til kannski fæ ég sendar myndir frá Bibbu og þá get ég skellt inn sýnishorni fyrir ykkur.

Sunnudagurinn fór bara í ekki neitt, ég var þreytt og sifjuð og nennti ekki að hreyfa mig, var ekki orðin góð af hálsbólgunni en nú held ég að ég sé öll að hressast. Drífa kom í heimsókn og fór aftur í gær, frekar stutt stopp hjá henni. En nú ætla ég að fara að græja min í vinnuna mína.....

laugardagur, febrúar 11, 2006

Annar í helgarfríi

Ekki er ég nú alveg orðin góð af pestinni en þó er það í áttina. Ég er allavegana farið að velta fyrir mér hvort ég ætti að fara í ræktina en sleppa sundinu í dag. Það er frekar leiðinlegt fyrir mig að verða lasin einmitt þegar ég er komin í helgarfrí en ég er viss um að vinnuveitandinn er feginn því þá þarf hann ekki að kalla út einhverja á aukavakt. Kristin Ben er búin að vinna eins og geðsjúklingur, hún hefur tekið nokkrar tvöfaldar vaktir og svo er hún alltaf í vinnu hjá kærastanum. Hún er líka þreytuleg og ég held að hún verði að fara að hægja á sér ef hún ætlar ekki að veikjast líka. Næsta vika verður erfið hjá mér, þá þarf ég að taka allavega tvo tvöfalda daga. Þetta verður svona þangað til í byrjun mars en þá fáum við vonandi inn nýja konu.

Og svo eru það vetrarólynpíuleikarnir, stanslaus veisla fyrir augað, ég horfi á það sem ég get vegna vinnunnar og ræktarinnar og afganginn tek ég upp, vonandi bræðir videotækið ekki úr sér. Sem betur fer eru leikarnir haldnir á Ítalíu, þá er ekki nema klukkutíma tímamismunur. Hann var alveg að gera út af við mann þegar leikarnir voru haldnir í Sapporo, þá snéri maður sólarhringnum við. Friðrik hefur ekkert gaman að horfa á skíðin og ég verð að virða það við hann, ekki horfi ég á box............

En ég hlakka til í kvöld, nammi mamm.............

föstudagur, febrúar 10, 2006

Pestarfár

Æi hvað mér líður illa, oj bara, því ég ætlaði að fara með Friðrik í bæinn, hann er að fara á ráðstefnu í dag og boðið upp á hótelgistingu eina nótt. Ég átti reyndar bara það erindi að kaupa mér sundbol og hitta börnin mín og heimsækja Guðrúnu systur og fjölskyldu. Í staðin ligg ég bara bakk með hálsbólgu og hita og magapest að auki. Nú gildir lögmálið ekki lengur um að “allt sem fer upp, fari aftur niður”, heldur allt sem fer inn fyrir mínar varir dvelur þar ekki lengi, heldur kemur niður.

Ég vona bara að ég nái þessu úr mér og verði hress annað kvöld á villibráðarkvöldinu okkar. Það var haldinn undirbúningsfundur hjá karlpeningnum í gærkvöldi og þeir ætla að mæta kl. 18:00 og byrja að elda. Við eigum að koma klukkutíma seinna og mæta þá uppábúnar í matinn. Ég ætla að taka myndavélina með og mun deila með ykkur myndum af herlegheitunum eftir helgina. Svo finnst mér tilvalið að koma þeim á óvart með blómum og konfekti fyrir hugulsemina.

fimmtudagur, febrúar 09, 2006

Körfuboltafréttir

Snæfell vann í miklum baráttuleik 68-67.  Frábært við þurftum á þessu að halda.

Bilanavaktin

Þá er vinnuvikan búin hjá mér og ég komin í helgarfrí. Það er fínt því það bilaði flest sem bilað gat í vinnunni. Loftræstikerfið fyrir innisundlaugina bilaði og loftslagið þar var mjög tælenskt óbærilega heitt og rakt og ekki hægt að kenna þar fyrir hádegi. Rafvirkinn var kallaður út og þessi elska hætti ekki fyrr en hann kom þessu í lag. Síðan bilaði nuddpotturinn. Það var þannig að þegar nuddið var sett í gang, þá hvarf vatnið úr pottinum og gaus upp fyrir utan pottinn. Hreppararnir voru kallaðir til og mættu þrír galvaskir til að skoða ósköpin. (það dugði ekki færri) Þeir voru búnir að rífa upp hellurnar af stóru svæði og grafa djúpa holu og virtust hafa fundið eitthvað athugavert þegar ég fór af vaktinni. Annars var allt með kyrrum kjörum eins og venjulega. Ég er hálfslöpp, veit ekki hvað veldur en ætla að leggja mig smástund og mæta svo aftur í Íþróttahúsið á leik Snæfells og Grindavíkur til að hvetja mína menn. Leyfi ykkur að fregna úrslit leiksins seinna í kvöld. Until then........

miðvikudagur, febrúar 08, 2006

Villibráð á laugardaginn

Það er svo skrýtið hvernig maður kynnist fólki á mismunandi hátt eftir því við hvaða aðstæður maður hittir viðkomandi. Ég fór að synda í morgun eins og í gær eftir að ég var búin að púla og hitti sömu konuna í pottinum og við spjölluðum um heima og geyma. Þessi ónefnda kona reyndist vera bæði fróð og skemmtileg og við skemmtum okkur vel við spjallið. Þesi kona kemur mjög mikið í sund og þegar ég hef hitt hana hinu megin við afgreiðsluborðið þá hefur mér virst hún vera frekar þung og alvörugefin en svona kemur fólk oft á óvart.

Í dag er einmuna blíða, logn og glampandi sól en ískalt nærri 7 stiga frost. En það er allt svo bjart og fallegt í sólskininu og svei mér þá það fer um mig “vorfiðringur” því það styttist í vorið og allt sem því fylgir. Friðrik, Ásgeir Gunnar og Hemmi eru á kafi við að undirbúa bátana fyrir vorið og á laugardaginn ætla þeir að elda fyrir okkur konurnar heima hjá Hermanni. Ég hlakka mikið til því það er alltaf gaman að fara út að borða með skemmtilegu fólki. Ég lét sérpanta eitthvað dýrindis rauðvín til að hafa með villibráðinni og það verður gaman að vita hvernig það kemur út. Þetta ku vera eitthvað eðalvín frá Portugal þrungið sól og sumaryl

þriðjudagur, febrúar 07, 2006

Ekki ítur það vel út fyrir Dani

Ég fór í ræktina og í sund í gær og var þá hálf lasin. Ég held svei mér þá að ég hafi náð að hrista af mér lasleikan og allavegana leið mér miklu betur þegar ég var búin af öllu þessu. Það er víst betra að vera í fullu fjöri næstu vikurnar því það verður mikil vinna á okkur það vantar alltaf fólk. Nú er ein hætt í fjórða eða fimmta sinn síðan í vetur og mér skilst að hún komi ekki aftur í þetta sinn. Ég verð að segja að ég er nú bara hálf fegin því. Þetta var ekki orðið hægt gagnvart öðrum sem vinna þarna.

Ég ætla samt að fara í bæinn með Friðrik á föstudaginn og kaupa mér nýja sundbol því sá gamli er alveg að detta sundur og það væri nú hálf neyðarlegt ef það gerðist á meðan ég væri að synda. En hvar ætli ég fái fallegan sundbol annar staðar en í Útilífi? Ábendingar vel þegnar.

Aumingja Danir, þeir fóru aldeilis flatt á húmor sínum sem er nú alltaf góður. Alla vega fíla ég skensið hjá þeim. En það er víst betra að vita hverjir kunna að taka gríni, því það eru miklir hagsmunir í húfi fyrir þá. Og ekki er lengur örugt fyrir danska þegna fyrir að heimsækja eða búa í þessum löndum. Ég segi enn og aftur, þetta er bilað fólk og ég vona bara að við lendum ekki í vændræðum með það seinna. Sjáið þið ekki það fyrir ykkur hvað hefði gerst þegar landhelgisdeilan stóð sem hæst ef Bretar hefðu brennt fána okkar og hótað að drepa þá íslendinga sem þeir næðu í ?

mánudagur, febrúar 06, 2006

Hálsbólga og hausverkur

Nú er helgin af baki og fólk búið að fara á skemmtun ársins. Mér skilst að þetta hafi verið að vanda afar skemmtilegt og mikið fjör. Fólk var í sínu fínasta pússi og dansaði fram á rauða nótt. Hjá mér var mikið fjör líka en bara öðruvísi. Ég man ekki eftir svona örtröð af fólki í sundlauginni síðan í sumar. Hér eiga margir sumarhús og greinilega voru þeir velflestir mættir á staðinn og allir fóru í sund. Stykkishólmsbær styður Latabæjarverkefnið með því að bjóða öllum grunnskólabörnum frítt í sund og nýttu börnin sér það í ríkum mæli. Frábært framtak og mættu fleiri bæjarfélög taka sér þetta til fyrirmyndar.Veðrið var eins og á sumardegi, 8 stiga hiti og sól með köflum (hafið þið séð köflótta sól?) Birta og Friðrik voru jafn róleg og góð og venjulega og ekkert fyrir þeim haft.

Í dag á ég frí og ætlaði að fara í bæinn í morgun og koma heim á miðvikudag beint í vinnuna en ekkert varð úr því þar sem ég næaði mér í hálsbólgu og hausverk og hitaslæðing. Frekar fúlt. En svei mér þá ég er bara hreinlega að hugsa um að skella mér í ræktina seinnipartinn og athuga hvort ég hressist ekki. Mér líður þannig að ég held að mér geti ekki annað en batnað!!

föstudagur, febrúar 03, 2006

Þorraþræll

Á morgun ætla Hólmarar að blóta Þorra ! ! Hið árlega þorrablót okkar verður haldið á morgun og er vel til þess vandað að venju. Ómæld vinna hefur verið lögð í heimatilbúin skemmtiatriði þar sem gert er góðlátlegt grín að mönnum og málefnum og passað vel að meiða engan. Ég hef ekki orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að komast á þessa margfrægu skemmtun og þar sem maðurinn er á bakvakt þá nenni ég ekki ein. Enda er vinnuhelgi hjá mér. Ég ætla að passa Friðrik Örn og Birtu (ég bauðst til þess) og við ætlum að panta okkur pizzu og gera eitthvað skemmtilegt. Ég er að hugsa um að kaupa fullt af nammi, enda nammidagur hjá flestum börnum á laugardögum og auðvitað nýt ég góðs af því.  Þar er tilvalið að verðlauna sig fyrir dugnaðinn í ræktinni og borða nammi og eyðileggja þar með árangurinn sem hafði náðst með öllu puðinu. Góða helgi.

Áfram Danir

Jæja þá er þáttöku okkar á Evrópumótinu í handbolta og virtist sem íslensku leikmenninirnir hefðu bara ekki nægilegt úthald til að klára þetta. En eins spaugstofan söng um “það gengur bara betur næst. Nú set ég allt traust mitt á Dani og vona að þeir nái sem lengst. Áfram Danmörk.

Það eru nú meiri lætin í þessum múslimin út af nauðaómerkilegum myndum af Muhamed spámanni. Þetta lið er kolruglað og ef að á að ráðast á Dani eða aðra fyrir þessar sakir þá geta þeir sýnt samstöðu í að brenna fána og kasta grjóti. Ég er ekki mjög hrifin af þeirri hugmynd að Múslimar á Íslandi fái að reisa sér mosku, ég held að við gætum lent í vandræðum seinna meir ef við flytjum inn og mikið af flóttafólki með þessi trúarbrögð. Mín skoðun er sú að við eigum að stemma stigu við flóttamannainnflutningi almennt, svo við lendum ekki í sömu vandræðum og norðurlandaþjóðirnar hafa lent í. Svo er nú alveg greinilegt að þetta fólk er algjörlega húmorslaust og kann ekki að taka gríni

miðvikudagur, febrúar 01, 2006

Lífið er handbolti

Ekki gekk það hjá landanum að vinna Króata. Tap með einu marki hefði nú einhvern tíman þótt góður árangur þar sem Króatar eru fyrrverandi heims- og ólynpíumeistarar en að mínu viti áttum við að vinna þennan leik. Það var sárt að sjá þá hreinlega kasta sigrinum frá sér í restina og voru þó tveimur mönnum fleiri. Þegar að vel gengur eru væntingarnar miklar og kannski er það ósanngjarnt en svona er þetta bara. Ég er samt stolt af landsliðinu okkar og vona að þeir bíti bara í skjaldarrendur og vinni Norðmenn stórt á morgun.
Ennþá fækkar í röðum leikmanna, í dag meiddist einn leikmaðurinn enn. Þá eru þeir orðnir fjórir sem hafa meiðst illa og ef þetta heldur áfram þá endar það með því að við leikum með nokkurskonar varalið. En nú er bara að senda góðar óskir og jákvæða strauma til liðsins og vera klár við sjónvarpstækin kl.17:00 á morgun. Ég verð því miður að láta mér nægja að hlusta á lýsingu á rás tvö því ég á kvöldvaktina..........