Ég man vel eftir því þegar ég var lítil stelpa á Akranesi að við krakkarnir rifum okkur á fætur fyrir allar aldir til að geta náð ömmu minni og gamalli frænku minni í rúminu og bollað þær með litfögrum bolluvendi sem okkur hafði verið gefinn. Að launum fengum við rjómabollur og heitt súkkulaði. Þetta var mjög spennandi í augum okkar krakkanna og mér finnst synd að þessi siður skuli vera aflagður þótt hann sé kominn frá Danmörku. Á öskudaginn var verið með ofurskrautlega öskupoka sem mamma hafði hjálpað okkur að sauma og þeir voru síðan hengdir á fólk þegar það uggði ekki að sér. Aðalgrínið var að sjá fullorðna fólkið labba um með öskupoka á bakinu. því miður er þessi siður líka á undanhaldi en þó sá ég nokkur börn með öskupoka í íþróttahúsinu í dag og voru þau mjög spennt yfir grímuballinu sem á að halda þar á morgun. Ég er satt að segja mjög fegin því að vera í fríi á morgun.
Í gær fór ég í gönguferð með henni Erlu Harðar. Hún er þvílíkur göngugarpur að ég átti í mesta basli við að fylgja henni. Allavegana komst ég að því að ég var allt of mikið klædd og var farin að rífa af mér spjarirnar (úlpuna) í lok göngu. Við enduðum síðan í sundlauginni og þetta var alveg æðislegt. Við ætlum aftur á morgun. En í kvöld ætla ég að borða saltkjöt og baunir eins og sönnum Íslending sæmir. Saltkjöt og baunir, túkall................