miðvikudagur, nóvember 30, 2005

Sálarfátækt

Mér blöskraði svo þegar ég las í DV, sem ég annars aldrei sé nema á helgum í vinnunni, frásögn blaðamanns af árás tveggja ungra manna á útigangsmann. Þeir höfðu vesalingarnir ekkert annað þarfara eða skemmtilegra að gera en að elta uppi vesalings ólánsmann með vatnsfötu og hveitipoka til þess eins að skvetta yfir hann og niðurlægja og tóku svo "hetjudáðina" upp á myndband og settu á netið öðrum til "skemmtunar". Þegar þeir voru svo spurðir af hverju þeir hefðu gert þetta, sögðust þeir myndu gera þetta aftur því þetta hefði verið svo fyndið. Hvað er eiginlega að hjá ungum mönnum sem hafa ekkert annað að gera en að níðast á þeim sem ekki getur svarað fyrir sig? Eru þessir menn orðnir svona skemmdir af neyslu áfengis og vímuefna að þeir sjái ekki að með þessum gjörðum sínum niðurlægja þeir fyrst og fremst sjálfa sig? Og ætli þessir ungu menn hafi valið fórnarlamb sitt vegna þess að þeir séu á góðri leið með að enda eins og það, heimilislaus óreglumaður eða skyldi þetta vera í anda þeirra jóla sem þeir hafa upplifað? Ég er svo glöð að búa í Stykkishólmi þar sem svona lagað þekkist sem betur fer ekki og enginn á vergangi svo vitað sé.

mánudagur, nóvember 28, 2005

Legið í leti

Er ekki bara í lagi að vera löt núna þegar svona dimmt og drungalegt úti? Ég nenni hreinlega ekki að byrja á að baka eða skreyta fyrir jólinn, vil bara kveikja á kertum með jólailmi og kúra í sófanum yfir einhverju innihaldslausu sjónvarpsefni. Veit ekki afhverju ég er svona löt, kem heim út vinnunni og geri svo ekki meira en að fara í bað og svo að sofa í hausinn á mér. Ekki skemmtilegur félagsskapur það. Dóra Lind mín kom í heimsókn í gær og ætlar að fara aftur á morgun. Ekki langt stopp hjá henni enda er hún á kafi í próflestri. Við ætlum þó að skreppa í sund á eftir og athuga hvort við hressumst ekki báðar. Við sáum reyndar Snæfell vinna Keflavík stórt í gærkvöldi, það var alveg frábært. ÁFRAM SNÆFELL

fimmtudagur, nóvember 24, 2005

Og dagar dimmir detta á........

Þetta er hún Karen Harpa, lítil ömmustelpa í Reykjavík sem ég því miður þetti allt og lítið. Rúnar minn á þennan gullmola en hefur ekki samband við hana, fyrirgerði því þegar hann var í rugli og mamma Karenar hefur ekki viljað leyfa honum að hafa samband við hana eftir það. Að mínu áliti þá ætti hún að endurskoða það og leifa barninu að hitta föður sinn og vera með henni því hún getur aldrei breytt því að hann er faðir hennar hvernig svo sem hann er. En þessi fallega stelpa varð fjögra ára í gær......................


SKAMMDEGIÐ

Mikið er allt dimmt og drungalegt þessa dagana, það birtir varla allan daginn og myrkrið er skollið á aftur rúmlega fjögur á daginn. Bæjarstarfsmennirnir ( þeir í áhaldahúsinu) hafa verið duglegir við að setja upp ljósaskreytingar á ljósastaurana því á sunnudaginn er fyrsti sunnudagur í aðventu. Það er sem sagt bráðum að koma jól ef það skyldi hafa farið fram hjá einhverjum. Við þurfum bráðum að fara að huga að jólaskreytingum í sundlauginni þó svo að við bæjarstarfsmenn erum svo vel haldin af launum okkar að við þurfum ekki þessa 26.000,- kr. eingreiðslu sem láglaunastéttirnar eiga að fá nú í desember. Verst er að þessi miklu laun hafa ekki skilað sér í mitt launaumslag en kannski kemur jólasveinninn "eitthvað gott í skóinn" til okkar hálaunuðu bæjarstarfsmannanna................

sunnudagur, nóvember 20, 2005

Ferjan Baldur

Það er nú dálítið gaman að segja frá því að í gær fór ég sem kokkur á ferjunni Baldri. Ég hef ekki látið til leiðast til að gera það eftir að ég hætti þar haustið 2003 þótt ég hafi oft verið beðin, en í þetta skipti gat ég ekki fengið af mér að neita. Hella (það er kokkurinn) þurfti að fá frí og ég var í fríi frá sundlauginni í gær. Hú var að fara á árshátíð með vinnu mannsins síns, og átti að gista á hóteli, fara á Nínu og Geira, (söngbók Björgvins Halldórssonar) og borða góðan mat. En það er skemmst frá því að segja að ég komst í gegn um daginn með naumindum. Ég var búin að gleyma hve erfitt þetta getur verið og þar að auki var ég bara ein. En þetta var samt gaman, gaf skipshöfninni saltfisk (alltaf saltfiskur á laugardögum hjá sjómönnum) seldi afganginn til farþeganna eða steikti fyrir þá samlokur og hamborgara. Síðan lét ég mig hafa að baka gersnúða og voru þeir ánægðir með það. Veðrið var mjög gott, sunnan gola og báturinn hreifðist varla en það er samt alltaf eitthvað um að fólk verði sjóveikt. Ég hef sem betur fer aldrei verið sjóveik og ég held að það gangi illa ef fólk vinnur á sjó. Samgönguráðherra bauð til heljarmikillar veislu á hótelinu hér í Hólminum í gær og bauð öllum bæjarbúun. Ég nennti ekki að fara, Friðrik langaði ekki og eg var þreytt eftir sjómennskuna. Drífa er búin að vera hjá okkur um helgina, gaman að fá hana loksins heim efitt alla þessa útiveru. Hún er allta jafn sæt og góð. Dóra ætlaði að passa fyrir systur síns í gærkvöldi og ég vona að það hafi gengið vel...........

laugardagur, nóvember 19, 2005

Barnabörnin í Horsens

Þetta er Elísa Kristín. Hún er níu ára síðan 23 nóvember. Algjör gella í Halloweenbúning.


Þetta er litla krúttið hann Victor Máni, yndislega vær og góður strákur, fæddur 28. september.


Og þetta er svo skottið og fjörkálfurinn hún Lovísa Rún, hún er tveggja ára síðan 6. júlí.




miðvikudagur, nóvember 16, 2005

Smá vandamál við myndbirtingu

Halló elskurnar mínar, nú er ég komin heim í Stykkishólm. Fríið mitt loks búið og nú tekur alvara lífsins við. Ég keyrði snemma í morgun vestur í fljúgandi hálku, alveg með hjartað í buxunum en það gekk samt alveg ljómandi vel. Svo fer ég að vinna kl. 15.00 og verð að vinna alla helgina nema ekki á laugardaginn. Ég ætla að fara eina ferð sem kokkur með Baldri, það bráðvantaði kokk og ég sló til. Það verður bara gaman því það er orðið langt síðan ég fór síðast sem kokkur. Vonandi verð ég ekki sjóveik, var reyndar aldrei sjóveik en maður veit aldrei hvað gerist en veðrið verður ekki gott. Það urðu smá mistök við myndbirtinguna af dönsku barnabörnunum hjá mér þið verðið að fyrirgefa mér það. Er ekki alveg búin að læra að gera þetta rétt en bráðum kemur Drífa vestur og þá ræðst ég á hana og læt hana kenna mér að gera þetta rétt. En nú verð ég að hlaupa........ vinnan bíður

mánudagur, nóvember 14, 2005

Allt tekur enda..., líka fríið í Danmörku

Þá er kominn mánudagur og ég fer heim á morgun. Tíminn hefur eiginlega flogið áfram. Við fórum í tveggja tíma gönguferð í gær í góðu veðri en það er samt að kólna hér smám saman. Danir eru greinilega ekki eins snemma á ferðinni með jólaskeytingarnar eins og Íslendingar en samt er aðeins byrjað að skreyta hér í búðum og eins úti á göngugötunum en þeir kveikja ekki á ljósaskreytingunum fyrr en eftir tvær vikur eða svo. Reyndar oppnuðu þeir jólalandið í Århus og Tivoli í Køben á föstudaginn og fólk er greinilega farið að kaupa jólagjafirnar. Það verður jólasemming hjá okkur í kvöld, við ætlum að elda ekta danska jólaönd og svo fer ég bara heim á þriðjudagsmorgun. Hlakka samt til að koma heim til Friðriks míns. Meira seinna, litla barnið er vaknað..........

laugardagur, nóvember 12, 2005

Halloween Afmæli

Hér var mikið fjör í allan dag, 12 skvísur bæði íslenskar og danskar mættu uppdressaðar í Halloweenbúningum í afmælisparty Elísu kl.12 á hádegi. Borðaður þessi fíni réttur a la Sverrir hakk og spagettí og súkkulaðikaka á eftir. Elísa var búin að skreyta húsi í anda Hrekkjavökunnar með kóngulóarvef og graskerjum og draugum og þetta varð hin skemmtilegasta veisla. Það sem ég var hrifnust af var hvað dönsku börnin eru stundvís. það var komið á mínótunni 12 og síðan voru þau sótt á mínótunni hálf 3 en þá var afmælið búið. Lovísa er algjört skott og getur aldrei verið kyrr en hún er ósköp góð en prinsinn er algjört draumabarn, drekkur og sefur þess á milli. Það var komin tími til að Sigga og Sverrir fengju rólegt og vært ungabarn. Læt þetta duga í bili ........

fimmtudagur, nóvember 10, 2005

Komin til Danmerkur

Þá er ég kominn til Danmerkur og þetta fallega land heilsaði með yndislega fallegu veðri, sól og blíðu og 14 stiga hita. Hrafnhildur vinkona hitti mig á Kastrup og við eyddum deginum saman þangað til ég þurfti að taka lestina til Horsens um hálf sex leytið. Var komin til Horsens kl. 20:30 og tóku Sverrir og Elísa á móti mér á lestarstöðinni. Þegar við komum heim var Lovísa litla sofnuð en Victor Máni í fullu fjöri. Hann er algjör dúlla og líkur báðum systrum sínum og þó ekki. Síðan var farið að hvíla sig enda dagurinn búinn að vera langur hjá mér. Við Sigga tókum það bara rólega i dag, fórum í Bilka til að kaupa það sem Siggu vantaði til undirbúnings fyrir afmælið hennar Elísu sem er á laugardaginn, hún verður sem sagt níu ára. Sem sagt yndisleg að vera hér í rólegheitum og "hygge sig" ved julestemning. På gensyn mine venner.

sunnudagur, nóvember 06, 2005

Sunnudagspása

Ég sit hér og nota tíman til að blogga því Guðný og Árni komu í heimsókn og tóku Sunnevu með sér í bíltúr. Blessað barnið var dauðfegin að vera laus við mig smá stund og ég verð að vera hreinskilin, ég var dauðfegin að fá smá hlé frá henni. Hún er algjör orkubolti og þar heilmikla eftirtekt og er algjör herforingi að auki. " Amma ég ræð hér" sagði hún um daginn. En annars er hún voða góð og þæg, ég er bara ekki í "æfingu" í barnastússi lengur.

Andri er oftast búin að vera voða góður en hann er bara svo þrár og svo gegnir hann ekki fyrr en maður er orðinn reiður. En þetta hefur samt gengið mjög vel. Hann fékk að gista hjá Helgu frænku sinni síðast liðna nótt og svo komu þau um 11 leytið í morgun í nýbakaða kanelsnúða og gerðu þeim góð skil.

Friðrik minn er heima lasinn og ég vona að Arna og Gerða sem komu vestur í heimsókn hugsi nú vel um hann fyrir mig. Ég segi nú bara svona því ég veit að þær dekra við hann. Hann sem verður aldrei veikur að eigin sögn fékk svo svæsna hálsbólgu að hann gat ekki talað. Hann treysti sér ekki í vinnu á föstudaginn og það gerist nú ekki oft.

Nú er prófkjöri lokið hjá sjálfstæðismönnum í Reykjavík og úrslit komu ekki mjög á óvart. Vilhjálmur vann Gísla Martein með þó nokkrum mun og er ég persónulega ánægð með það. Ég kann ekki að meta Gísla Martein finnst hann svo ágengur og æstur. Held að hann ætti bara að drífa sig og klára stjórnmálafræðina og reyna svo aftur eftir 4 ár á réttum forsemdum og vonandi reynslunni ríkari. Því eins og Spaugstofan söng um "Það gengur bara betur næst"...

fimmtudagur, nóvember 03, 2005

Barnfóstrustörf dagur eitt.


Þá er fyrsti dagurinn minn með börnunum að verða komin að kveldi. Börnin eru löngu sofnuð og voru fjarskalega góð við ömmu sína fyrir utan kastið sem Andri fékk í morgun þegar hann hélt að hann væri að verða of seinn í skólann. Hann kom heim úr skólanum um tvö leytið og lærði, fór síðan á fótboltaæfingu. Ég sótti Sunnevu á leikskólann um fjögurleytið og sótti síðan Andra um kl. hálf fimm. Við borðuðum um hálf sjö, síðan var leikið sér smá stund og svo burstaðar tennur og lesin ein bók. Svo fóru þau að sofa og hafa ekki rumskað. Ég tók Sunnevu sofandi upp og setti hana á koppinn og hún pissaði steinsofandi. Þau eru sem sagt algjörir englar elsku krúttin mín.

miðvikudagur, nóvember 02, 2005

Aftur í frí

Jæja þá er komið að því að klára sumarfríið. Ég ætla að skreppa suður til Reykjavíkur og passa Andra og Sunnevu á meðan Kristín og Jónas fara til Póllands í fjóra daga. ´Vonandi gengur það vel, ég hef svo sem ekki áhyggjur af öðru en að ég verði ekki orðin góð í bakinu en það er ég ekki enn. Svo þegar þau koma heim fer ég til Horsens að heimsækja Danina mína sem ég hef ekki séð síðan á áramótum og Victor Mána hef ég bara séð á myndum. Ég hlakka mikið til og vona að ég verði þokkalega heppin með veður.

Þetta er hann hann Andri Freyr. Hann er algjör fótboltadellustrákur og virkilega góður í boltanum. Hann er núna að jafna sig eftir hálskyrtlatökuna og ætlar að hjálpa ömmu gömlu að passa systur sína.


Þetta er svo skottan sjálf hún Sunneva Ósk. Hún er algjör frekjudrós en alveg einstaklega skemmtilegur og duglegur krakki.

Jæja elskurnar mínar læt þetta duga í bili, er að verða of sein í vinnuna. Blogga meira þegar ég er komin í bæinn og læt vita hvernig barnfóstrustarfið gengur.