sunnudagur, nóvember 06, 2005

Sunnudagspása

Ég sit hér og nota tíman til að blogga því Guðný og Árni komu í heimsókn og tóku Sunnevu með sér í bíltúr. Blessað barnið var dauðfegin að vera laus við mig smá stund og ég verð að vera hreinskilin, ég var dauðfegin að fá smá hlé frá henni. Hún er algjör orkubolti og þar heilmikla eftirtekt og er algjör herforingi að auki. " Amma ég ræð hér" sagði hún um daginn. En annars er hún voða góð og þæg, ég er bara ekki í "æfingu" í barnastússi lengur.

Andri er oftast búin að vera voða góður en hann er bara svo þrár og svo gegnir hann ekki fyrr en maður er orðinn reiður. En þetta hefur samt gengið mjög vel. Hann fékk að gista hjá Helgu frænku sinni síðast liðna nótt og svo komu þau um 11 leytið í morgun í nýbakaða kanelsnúða og gerðu þeim góð skil.

Friðrik minn er heima lasinn og ég vona að Arna og Gerða sem komu vestur í heimsókn hugsi nú vel um hann fyrir mig. Ég segi nú bara svona því ég veit að þær dekra við hann. Hann sem verður aldrei veikur að eigin sögn fékk svo svæsna hálsbólgu að hann gat ekki talað. Hann treysti sér ekki í vinnu á föstudaginn og það gerist nú ekki oft.

Nú er prófkjöri lokið hjá sjálfstæðismönnum í Reykjavík og úrslit komu ekki mjög á óvart. Vilhjálmur vann Gísla Martein með þó nokkrum mun og er ég persónulega ánægð með það. Ég kann ekki að meta Gísla Martein finnst hann svo ágengur og æstur. Held að hann ætti bara að drífa sig og klára stjórnmálafræðina og reyna svo aftur eftir 4 ár á réttum forsemdum og vonandi reynslunni ríkari. Því eins og Spaugstofan söng um "Það gengur bara betur næst"...