miðvikudagur, nóvember 30, 2005

Sálarfátækt

Mér blöskraði svo þegar ég las í DV, sem ég annars aldrei sé nema á helgum í vinnunni, frásögn blaðamanns af árás tveggja ungra manna á útigangsmann. Þeir höfðu vesalingarnir ekkert annað þarfara eða skemmtilegra að gera en að elta uppi vesalings ólánsmann með vatnsfötu og hveitipoka til þess eins að skvetta yfir hann og niðurlægja og tóku svo "hetjudáðina" upp á myndband og settu á netið öðrum til "skemmtunar". Þegar þeir voru svo spurðir af hverju þeir hefðu gert þetta, sögðust þeir myndu gera þetta aftur því þetta hefði verið svo fyndið. Hvað er eiginlega að hjá ungum mönnum sem hafa ekkert annað að gera en að níðast á þeim sem ekki getur svarað fyrir sig? Eru þessir menn orðnir svona skemmdir af neyslu áfengis og vímuefna að þeir sjái ekki að með þessum gjörðum sínum niðurlægja þeir fyrst og fremst sjálfa sig? Og ætli þessir ungu menn hafi valið fórnarlamb sitt vegna þess að þeir séu á góðri leið með að enda eins og það, heimilislaus óreglumaður eða skyldi þetta vera í anda þeirra jóla sem þeir hafa upplifað? Ég er svo glöð að búa í Stykkishólmi þar sem svona lagað þekkist sem betur fer ekki og enginn á vergangi svo vitað sé.