fimmtudagur, desember 01, 2005
Adrenalín í íþróttahúsinu
Við hérna í Hólminum kunnum aldeilis að halda hina ýmsu tyllidaga hátíðlega !! Alþjóð veit að við tölum dönsku á sunnudögum og hinir víðfrægu dönsku dagar okkar seinni partinn í ágúst laða fólk úr öllum landshlutum að. Í dag 1 desember 2005 fögnuðum við fullveldisdeginum þannig að körfuboltastrákarnir okkar unnu Skallagrím með einu stigi. Ég man bara varla eftir jafn spennandi leik. Við vorum komin 18 stigum undir eftir fyrsta leikhluta en liðsmenn Snæfells áttu þvílíkan viðsnúning og voru einu stigi yfir í hálfleik. Síðan var leikurinn hreinlega í járnum en Jón Ólafsson(Nonni Maju) skoraði á síðustu sekúndunum þriggja stiga körfu og sigurinn var okkar. Ég hélt að þakið myndi rifna af húsinu í fagnaðarlátum heimamanna og sumir áhorfenda voru örugglega með hættulega háan blóðþrýsting. Svona á að gera þetta, með stæl. Í fyrramálið þarf ég að skreppa til Reykjavíkur til þess að fá ný sjóngler. Ég verð að sætta mig við að þurfa að taka mér frí frá vinnu því eftir því sem sjóntækjafræðingurinn sagði mér þá vinna þeir ekki nema á virkum dögum frá 10 til 17. " Og hvað á ég þá að gera"? spurði ég. "Ja þú verður bara að skilja gleraugun þín eftir hjá okkur". Það skipti sem sagt engu máli þótt ég segði honum að það gæti ég ekki, ég væri staurblind án gleraugnanna minna, honum var alveg sama, mér var nær að búa ekki í Reykjavík. Annars finnst mér ekki leiðinlegt að sjá hvað fallegt er á þessum tíma í Reykjavík svo ég ætti ekki að vera að kvarta þetta..