fimmtudagur, febrúar 23, 2006
Og meira fjör.....
Það eru aldeilis breytingar í veðráttunni þessa dagana. Í gær var kolbrjálað veður, ofsarok og úrhellisrigning og varla stætt. Ég er ekki að ýkja, en það rigndi hreinlega inn til okkar þar sem við sátum í gæslunni og mesta vinnan var að hlaupa með fötur til að setja undir lekana í íþróttamiðstöðinni og vinda tuskur en ekki í gæslu því eins og gefur að skilja voru ekki margir gestir í sundlauginni þann daginn. Svo virðist sem veðurfarið hafi hlaupið í úrvalsvísitöluna því hún snarlækkaði og hlutabréf í íslenskum fyrirtækjum sömuleiðis. Í dag er svo allt annað upp á teningnum, einmunablíða, sól og logn og Hólmurinn skartar sínu fegursta. Aðsóknin í laugina góð og úrvalsvísitalan hækkaði um þrjú og hálft prósentustig af einskærri ánægju með veðrið. Þá hækkuðu hlutabréf í síslenskum fyrirtækjum í samræmi við það. Ég tók þá ákvörðun í dag að selja þessi fáu hlutabréf sem ég á og setja gróðann af þeim inn á öruggan reikning. Ég treysti ekki að íslenski hlutabréfamarkaðurinn hækki mikið meira í bili en hef svona frekar á tilfinningunni að hann lækki umtalsvert á næstu vikum og mánuðum. Ætla að taka andvirði höfuðstólsins og setja í erlendan hlutabréfasjóð hjá kb-banka og sjá til. Svo er stórleikur í körfuboltanum í kvöld, Snæfell og Njarðvík eigast við. Verður gaman að geta farið sem áhorfandi og setið i rólegheitum og notið leiksins en vera ekki á hlaupum í vinnunni. Fræði ykkur í kvöld um hvernig gekk svo áfram Snæfell................