laugardagur, febrúar 11, 2006

Annar í helgarfríi

Ekki er ég nú alveg orðin góð af pestinni en þó er það í áttina. Ég er allavegana farið að velta fyrir mér hvort ég ætti að fara í ræktina en sleppa sundinu í dag. Það er frekar leiðinlegt fyrir mig að verða lasin einmitt þegar ég er komin í helgarfrí en ég er viss um að vinnuveitandinn er feginn því þá þarf hann ekki að kalla út einhverja á aukavakt. Kristin Ben er búin að vinna eins og geðsjúklingur, hún hefur tekið nokkrar tvöfaldar vaktir og svo er hún alltaf í vinnu hjá kærastanum. Hún er líka þreytuleg og ég held að hún verði að fara að hægja á sér ef hún ætlar ekki að veikjast líka. Næsta vika verður erfið hjá mér, þá þarf ég að taka allavega tvo tvöfalda daga. Þetta verður svona þangað til í byrjun mars en þá fáum við vonandi inn nýja konu.

Og svo eru það vetrarólynpíuleikarnir, stanslaus veisla fyrir augað, ég horfi á það sem ég get vegna vinnunnar og ræktarinnar og afganginn tek ég upp, vonandi bræðir videotækið ekki úr sér. Sem betur fer eru leikarnir haldnir á Ítalíu, þá er ekki nema klukkutíma tímamismunur. Hann var alveg að gera út af við mann þegar leikarnir voru haldnir í Sapporo, þá snéri maður sólarhringnum við. Friðrik hefur ekkert gaman að horfa á skíðin og ég verð að virða það við hann, ekki horfi ég á box............

En ég hlakka til í kvöld, nammi mamm.............