mánudagur, febrúar 20, 2006

Eurovision

Þá er þessi helgin afstaðin og ég ligg lasin aftur!! Vaknaði með þvílíkan höfuðverk og beinverki klukkan sex í morgun. Átti að mæta í vinnu klukkan sjö og skellti mér í sturtu til að reyna að hressa mig við en ekkert dugði. Er búin að sofa síðan og mér finnst ég heldur vera að hressast. Vonandi hristi ég þetta af mér fljótt.

Það var annars nóg að gera hjá okkur í lauginni, ég held bara svei mér þá að flestir gestirnir hafi verið fólk utan af Nesi, sem kemur og verslar í Bónus og fer í sund á eftir. Mér finnst alveg frábært að sjá hvað margir af Grundfirðingum og Ólsurum nú og líka Söndurum, best að gleyma nú engum, koma og nýta sér þessa frábæru aðstöðu sem er hjá okkur í Hólminum.

Svo kórónaði nú helgina söngvakeppni Sjónvarpsins sem var virkilega flott. Kynnarnir, þau Brynhildur og Garðar voru öll að koma til og ef keppnin hefði verið tveimur þáttum lengri þá hefðu þau verið orðin nokkuð góð. Úrslitin komu ekki á óvart, ég meira að segja kaus Sylvíu Nótt og lagið “Til hamingju Ísland”, og rökin fyrir því voru að þetta var eina lagið eftir forkeppnina sem ég mundi laglínuna úr. Hvort hún skili okkur einhverju í Aþenu í vor er svo annað mál en mér finnst allt í lagi að hrista aðeins upp í keppninni. Æi, nú er ég aftur komin með kúndrandi hausverk svo ég ætla að drífa mig upp í rúm.........