fimmtudagur, mars 30, 2006

Annir í Reykjavík

Þá er Reykjavíkurdvölin að taka enda, dríf mig heim í fyrramálið. Það er búið að vera alveg brjálað að gera við að heimsækja ættingja og vini og í gær fór ég úr Mosvellsbænum upp úr níu og kom ekki heim fyrr en um miðnætti. Ég fór reyndar til tannlæknis í gær og svo aftur í morgun og þá byrjaði nú ballið!! Ég er viss um að maðurinn er sadisti! Ég á eftir að ganga í gegn um svona píninar fimm sinnum í viðbót. Ég get ekki sagt að ég hlakki mjög mikið til þess.

Við systurnar fórum á fund ættingja sem við höfðum aldrei séð í gærkvöldi til að skipuleggja ættarmót afkoenda langafa og langömmu í föðurætt. Það á að koma saman á ættaróðalinu sem er Þverá í Laxárdal og skoða gamla bæinn sem er safn í dag. Síðan ætlum við að borða saman í Ídölum og hafa það skemmtilegt. Afkomendur Langafa og langömmu eru ekki mjög margir, eitthvað um 70 manns fyrir utan maka. Þetta verður skemmtilegt og vonandi verða veðurguðirnir okkur hliðhollir. Ég hlakka til að komast´heim í Stykkishólm og fara í gönguferðir og sund með henni Erlu.

þriðjudagur, mars 28, 2006

Hávaðarok

Þá er ég komin heil og höldnu í bæinn. Veðrið var ekki svo slæmt, að minnsta kosti mun skárra en ég bjóst við eftir veður"hræðslu"fréttunum að dæma.
´
Ég tók þetta próf hér á síðunni hennar Dóru Lindar og skora ég hér með á fólk að prófa, bara gaman.

http://www.b2.is/?sida=tengill&id=156085

Svona dey ég!
You will die at the age of 113 You will be poisoned by your ex from your 7th marriage .

Annars hef ég ekki meira að segja í bili, Kristín Ýr ætlar að reyna að lappa upp á lookið og klippa mig í kvöld.

Teikn á lofti?

Ég held svei mér þá að tölvan mín hafi smitast af þessari pest sem hefur verið að hrjá fjölskylduna undanfarið. Ég kemst ekki á netið heima en Summi segir að þetta sé routerinn en ekki tölvan. Hvoru tveggja slæmt. Já ogsvo eru komin drög af teikningum af stækkuninni á Víkurgötu 1, og okkur líst mjög vel á hugmyndir bærings Bjarnars. Vonandi verður hægt að byrja með haustinu það væri alveg frábært. Er hætt við að fara í bæinn í dag, veðrið alveg hundleiðinlegt. Legg á stað snemma í fyrramálið.

mánudagur, mars 27, 2006

Slen

Jæja þá er ég aftur mætt í vinnuna eftir lasleika og fríhelgi sem fór eiginlega í þennan lasleika minn. Sem betur fer get ég útilokað strax "óléttu" þannig að þetta skrifast á magakvef!! Fékk góða gesti um helgina, Kristínu, Jónas og börn. Það var lurkur í þeim líka þau voru með þessa magapest svo það var ekki bara ég sem var hálf aumingjaleg. Tölvudruslan mín er eitthvað biluð, er að skrifa þetta í leyfisleysi í vinnunni eða þannig!! Fer til Rvk. á þriðjudaginn í "einkaerindum" og kem aftur í vinnu á föstudaginn. Annars allt í orden.

fimmtudagur, mars 23, 2006

Yðrakvef

En skemmtilegt. Er búin að sitja á dollunni í alla nótt með vaskafat fyrir framan mig. Ég held nú að ég sé eitthvað að jafna mig en ég held ég hvíli mig bara á vinnunni í dag. Ég sem ætlaði að vera svo dugleg í dag, heimsækja Dóra og Guðna rafvrkja og gera ýmislegt hér heima. Verð vonandi orðin hress á morgun því Kristín Ýr og Jónas ætla að koma í heimsókn með krakkana yfir helgina. Hér er leiðindaveður, snjófjúk og þriggja stiga frost og aðeins að byrja að birta.

miðvikudagur, mars 22, 2006

Svona er lífið!!

Þannig fór um sjóferð þá! Snæfell tapaði fyrir KR í æsispennandi oddaleik um sæti í fjögra liða úrslitum og eru komnir í sumarfrí. Ég held að æstustu stuðingsmenn liðsins hafi þurft áfallahjálp að leik loknum, svo miklar voru væntingarnar til leikmanna. Við skulum ekki gleyma því að þetta er eigi að síður frábær árangur hjá Snæfelli, sem varð fyrir mikilli blóðtöku í fyrravor þar sem lykilmenn fóru annað. Þetta lið er skipað ungum strákum sem eru uppistaðan í unglingaflokk okkar margir hverjir og þeir koma til með að verða áfram og þroskast sem leikmenn. Ég er þegar farin að hlakka til næsta leiktímabils og veit að þeir ná lengra þá. Svo áfram Snæfell.

Ég er búin að vera að ganga á morgnana með vinkonu minni henni Erlu Harðardóttur sem er algjör göngugarpur. Ég hef ekki roð í hana en hún lætur sig hafa að drusla mér með. Þetta er æðislega gott og gaman að hafa félagsskap og geta spjallað um heima og geyma. Síðan förum við í sund og heitapottinn á eftir. Þetta er algjört dekur, maður dúllar við sig eftir sundið, með kremum og fínheitum og fær sér svo kaffi á eftir. UMMM mér finnast þetta vera forréttindi að geta leyft sér svona munað.

P.S. Vigtin er heldur að síga niðrá við, það skemmir nú ekki!!

sunnudagur, mars 19, 2006

Vonbrigði

Æ ææ, er alveg miður mín. Snæfell tapaði með eins stigs mun í einum þeim mest spennandi leik sem ég hef á ævi minni séð. Nú er ég hrædd um að róðurinn verði erfiður í þriðja leiknum sem verður á þriðjudaginn í KR- heimilinu. Við sjáum hvað setur.

laugardagur, mars 18, 2006

Gjafmildi

Mikið er Bónusfjölskyldan rausnarleg!! Þau ákváðu, trúlega í gleðivímu eftir að hafa unnið málaferlin við ríkissaksóknara að bjóða íslenska ríkinu fram “hina kinnina” og rétta Barnaspítala Hringsins litlar 300 milljónir króna til rekstur á hágæsluherbergis. Já 300 milljónir!! Hvernig ætli sé að eiga svona mikla peninga að geta bara rétt 300 millur til eins verkefnis og 400 millur til annars og eiga samt ekki aura sinna tal.? Ég vildi gjarnan prófa það. En það rýrir ekki á neinn hátt gildi gjafarinna þeirra feðgina og svo er bara að sjá hvort verði hægt að manna slíka deild þar sem ekki er talið að margir sjúklingar þurfi á þessari þjónusta að halda sem betur fer.

Ég hef verið að skreppa í heimsóknir til Dóra hennar Írisar systurdóttur minnar sem liggur á bakdeildinni hér í Hólminum. Hann er sem betur fer að koma til og fékk helgarfrí um helgina. Á að koma á mánudag og vera líka næstu viku og vonandi fær hann þann bata að hann þurfi ekki í uppskurð. Svo er Guðni rafvirki úr Grundarfirði kominn á sjúkrahúsið og verður næstu átta vikurnar. Ég heimsótti hann í gær og líður honum nú ekki mjög vel. Hann datt niður af þaki á Beinamjölsverksmiðjunni í Grundarfirði á laugardaginn var og slasaðist afar illa. Báðir öklar hans hreinlega méluðust og svo brotnaði lærbeinið og mjaðmarbeinið öðru meginn. Hann er heppinn að hafa sloppið lifandi því þetta var 3-4 metra hátt fall.

Seinni leikur Snæfells og KR er í dag og búist er við að fólk fjölmenni á leikinn. Eins koma margir stuðningmenn með KR- liðinu og verður nóg að gera hjá okkur Magga og Rabba. Það er alltaf samt rosalega gaman í vinnunni þegar svona aksjón er. Gef ykkur update þegar ég kem heim í kvöld.

fimmtudagur, mars 16, 2006

Sætur sigur Snæfells

Fyrsti leikurinn milli Snæfells og KR er yfirstaðinn og okkur Hólmurum og öðrum velunnurum til ólýsanlegrar ánægju höfðum við betur, naumlega, en betur samt. Þá er að bíta í skjaldarrendur og búa sig undir leikinn í Hólminum á laugardaginn. Við verðum að vinna hann (sem ég veit að við gerum) og þá eru KR- ingar fallnir úr meistarakeppninni. Það verður fjör í vinnunni um helgina eins og nærri má geta. Púff, púff.

Jón Örn ætlar að koma í heimsókn um helgina og ég hlakka til að fá hann. Það er orðið mjög langt síðan hann hefur komið vestur, einhvern tímann löngu fyrir jól. Síðan kemur Dóra Lind í mýflugumynd á laugardeginum og fer á sunnudag aftur. Ég fór í gönguferð með Erlu í morgun og síðan syntum við og enduðum í pottinum. Ég held að ég hafi stoppað of lengi í honum því ég var hálfdösum í allan dag en nú er mál að linni, góða nótt.

Staksteinar

Í dag hefst úrslitakeppnin í körfubolta. Það verður spennandi að fylgjast með henni og vonandi gengur Snæfelli vel. Þeir byrja á móti KR-ingum í KR-heimilinu og því miður eru sigurlíkur þeirra minni en meiri. Þeir verða helst að vinna í kvöld, því það er líklegra að heimaleikurinn vinnist en hann er á sunnudaginn. Þetta er útsláttarkeppni og það liðið sem vinnur tvo leiki af þremur kemst áfram í næstu umferð. Ég hef ekki góða tilfinningu gagnvart leiknum, held því miður að þetta séu síðustu leikirnir okkar á þessu leiktímabili.Vatnalögin voru samþykkt á Alþingi í sæmilegri sátt og ekki kom til frekari ryskinga á hálfu alþingismanna. Mér satt að segja fannt þetta grátbrosleg hegðun á þeim mönnum sem eru kosnir til að setja lögin í landinu okkar. Í Rússlandi tíðkast þetta enn að menn sláist í  Dúmunni en einhvern veginn horfir það öðruvísi við ef það gerist á Íslandi.Og nú er hún Snorrabúð stekkur!! Bandaríkjamenn eru að fara með varnarliðið sitt frá Íslandi!! Ekki það að ég komi til með að sakna þeirra mikið, en við hefðum getað haft meiri not af þeim en gert var en “þjóðarstoltið” okkar kom í veg fyrir það. En hvar er það nú?  Mér heyrist á alþingismönnum að þeir séu ekki tilbúnir að missa herinn úr landi. Skrýtið!!!

þriðjudagur, mars 14, 2006

Vatnavextir

Það er alveg óborganlegt að fylgjast með umræðum á okkar háa Alþingi um vatnalögin, sem verður víst að breyta vegna þess að þau voru sett árið 1928 en eru í lagi að öðru leyti. Breytingarnar eiga ekki að skerða rétt almennings til frjáls aðgangs að vatni eftir .því sem stjórnarliðar segja en stjórnarandstaðan vill meina að nú eigi að græða á vatninu okkar góða og ef þú getur ekki borgað fyrir vatnið þá verður þú bara vatnslaus! Semsagt þú átt ekki vatnið sem seytlar niður fjallshlíðarnar og ef þú ert í gönguferð og þig þyrstir, svalar þorsta þínum með því að bergja á tæru lindarvatninu, er það trúlega í óleyfi gert. Það eru ekki orðnar margar auðlindirnar sem við Íslendingar eigum sameiginlegar og að mínu áliti er vatnið sjálfsögð mannréttindi hér á landi. Ég er á þeirri skoðun að við eigum ekki að breyta lögum sem eru góð og gild og “breyta engu” eins og stjórnarliðar segja bara af því að þau voru sett snemma á síðustu öld. Svo mikill hiti er í sölum Alþingis út af þessum væntanlegu lagabreytingum að þingmönnum hljóp kapp í kinn og menn stjökuðu hvorir við öðrum. Þeir þyrftu bara að skella sér í kalda sturtu til að kæla sig en sennilega gera þeir það ekki fyrr en skýrist hverjir eiga vatnið góða á Íslandi..........

mánudagur, mars 13, 2006

Helgarsukkið

Þá er fríhelgin liðin og var hún mjög notaleg. Við fengum heimsókn, Gerða, Sindri og Seimur brugðu sér í sveitina. Þau voru nú kannski fyrst og fremst að heimsækja Immu hjúkku sem er besta vinkona Gerðu. Við Friðrik skruppum út á Hellisand til að sjá húsið sem Íris og Dóri eru að byggja. mög rúmgott og flott hús, verður örugglega frábært þegar það klárast og staðsetningin er meiri háttar, útsýnið engu lýkt. Við hittum Írisi og Ísabellu og Hrein Inga. Ísabella var með flensuna alveg sárlasin og Hreinn Ingi var feiminn fyrst. Ég var alveg undrandi þegar ég kom niður á Rif, að sjá hvað hefur byggst þar upp undanfarin ár. Hellisandur hefur nú voða lítið breyst og þyrfti að taka til hendinni þar víða í umhirðu húsa og garða. Við vorum komin heim um sex leytið og Ég heimsótti Dóra upp á sjúkrahús. Hann er bara illa haldinn en vonandi gengur þetta til baka. Hann verður allavegana ekki látinn vera svona lengi ef bakþjálfun hjálpar ekki. Þá er það bara Reykjavík og trúlega aðgerð. En þeir ætla að sjá hvernig gengur þessa viku. Sindri og co fóru fyrir hvöldið, ég hafði matinn bara snemma. Eldaði svokallaðan”mömmu/ömmumat. Gamaldags læri, brúnaðar kartöflur, rauðkál (heimalagað) og asiur og svo auðvitað sulta með mammimamm. Ég á kvöldvakt í kvöld og svo helgarvakt næstu helgi svo það er vinnutörn framundan.

föstudagur, mars 10, 2006

Og meira fjör!!!

Þá er kominn föstudagur og helgi að bresta á. Mikið fannst mér gott að koma heim úr Reykjavík þótt það væri gaman að hitta vinkonurnar. Hún Hildur mín vann málaferlið við Landspítalan og henni voru dæmdar 6,8 milljónir í bætur, 25% öryrkja og 15% miski. Ég vona að hún vinni líka málið fyrir hæstarétti. Þetta var frábært. Ég á helgarfrí þessa helgina, var að vinna í gærmorgun og lenti í ótrúlegri uppákomu í vinnunni. Tölum ekki meira um það!! Maggi var þrítugur og kom með köku fyrir okkur. Salbjörg og María, vinkonurnar úr Grundarfirði komu í heimsókn og við fórum út að borða á Narfeyrarstofu, mjög fínt. Ég missti af síðasta leik Snæfells sem var í gærkvöldi en þeir burstuðu Þór frá Akureyri. Í kvöld á ég von að Greðu, Sindra og Seim og ætla þau að vera yfir helgina. Það verður skemmtilegt að fá þau, því þau hafa ekki komið síðan í desember. Rúnar minn var eitthvað að tala um að koma líka en ég hef svo ekkert heyrt frekar. Þetta kemur allt í ljós, hann er jafnvelkominn og aðrir í fjölskyldunni.. Semsagt stefnir í annasama helgi.

mánudagur, mars 06, 2006

Reykjavíkurferð

Kom til Reykjavíkur í gærkvöldi beint úr vinnunni og beint í dýrindis kvöldverð hjá Kristínu og Jónasi. Þau höfðu grillað lambalæri og kartöflur og búið til æðislegt hrásallat. Ég borðaði á mig gat því þetta var svo gott og ég hafði eitthvað lítið borðað. Andri og Sunneva hafa stækkað síðan ég sá þau síðast en það var um áramótin. Höfðum það svo notalegt og spjölluðum fram eftir kvöldi.

Í dag fór ég í Sigurbogann og keypti mér afar röndóttan sundbol. Ég lét ekki þar við sitja og verslaði mér líka hvítar buxur , bol og peysu. Síðan ók ég sem leið lá vestur á Aflagranda til Hildar vinkonu sem ég hitti síðast 2. des. en þá átti hún afmæli. Í dag vorum við bara tvær í rólegheitum og spjölluðum um heima og geyma. Tarrotspilin dregin fram og lögð, svona eins og við vorum vanar að gera meðan ég bjó í Reykjavík. Þetta var alveg yndislegt og ég fann hvað ég hef saknað hennar og Huldu mikið. Þótt ég eigi vinkonur í Hólminum þá eru þær ekki svona nánar mér og Hildur og Hulda hafa ýmislegt brallað með mér í gegn um árin. Síðan fór ég heim til Kristínar og þar sem hún var að setja strýpur í vinkonu sína þá fór ég og Jónas með Sunnevu í fimleika. það var alveg frábært að sjá þessi litlu skott læra undirstöðu fimleikanna bara þriggja ára gamlar og mest að furða hvað þær voru hlýðnar og góðar. Þetta er sem sagt búin að vera mjög notalegur dagur en því miður er hún Dóra Lind mín orðin lasin, sennilega iflúensuskömmin sem er að herja á hana. Vonandi verður hún orðin hressari á morgun. Ég ætla að drífa mig í bólið og fara að sofa, góða nótt.....

sunnudagur, mars 05, 2006

Er að fara til Reykjavíkur

Í dag er sunnudagur og ég er að fara í tveggja daga frí eftir daginn í dag. Ég ætla að nota fríið mitt og brenna í bæinn til Kristínar og eins þarf ég að fara til tannlæknis á þriðjudaginn. Ég ætla að fara beint úr vinnunni verð trúlega ekki búin fyrr en um sex leytið. Það var þvílíkt að gera hjá okkur í gær enda veðrið með eindæmum gott. Við fengum sjötíu börn sem voru hér á lúðrasveitarmóti í sund í gærmorgun og var það mikið fjör og svo komu starfsmenn Ingvars Helgasonar Holding líka, þar sem þeir voru með árshátíð sína á Hótel Stykkishólmi. Í dag er Turnering, eða fjölliðamót hjá áttunda flokki pilta í körfu, fimm lið koma og heimsækja okkur. Það er greinilegt að þegar veðrið er svona gott er vorhugur kominn í menn og þótt að hafi verið frost undanfarið þá er birtan orðin svo skemmtileg. Meistaraflokkur Snæfells spilar við Hauka í kvöld í Kópavogi og vonandi gengur þeim betur með þá heldur en KR-inga. Jæja læt þetta duga í bili..

fimmtudagur, mars 02, 2006

Tap gegn KR

Æ, ææ, æææ, við töpuðum fyrir KR í mjög spennandi leik með 4 stigum. Elskan hann Pálmi sem er fyrrverandi leikmaður Snæfells frá því í fyrra og íþróttakennari hjá okkur kafsigldi okkur með þriggja stiga skotunum sínum sem fóru flest ofnan í. Það verður að segjast eins og er að Snæfellsmenn gerðu það sem þeir gátu til að tapa leiknum, voru hreinlega lélegir og pirraðir og þá gekk ekkert upp hjá þeim. Við Vignir voru bara tvö á vakt og er það full lítið þegar á eftir að þrífa en allt gekk þetta og hann var svo sætur að leyfa mér að fara heim þótt ég ætti neðri hæðina og átti þess vegna að verða eftir og klára að ganga frá.

Er núna að fara að sofa í hausinn á mér, átti von á svila mínum í kvöld en hann hætti við að koma. Friðrik var búinn að handera reyktan Lunda sem átti að gefa honum en það er hans tap. Við komun honum örugglega út. Góða nótt........

miðvikudagur, mars 01, 2006

Bestu dætur í heimi

Í gær þegar ég var á kafi við að elda saltkjöt og baunir var bankað. Ég rauk til dyra með svuntuna framan á mér og á tröppunum stóð Sigga P, sem er blómabúðareigandi með meiru hér í bæ með risastóran blómvönd í fanginu sem hún rétti mér. "Er þetta til mín?" spurði ég. "já" sagði hún, "þú átt svo marga leynda aðdáendur" og svo fór hún hlægjandi. Ég stóð veð undrunarsvip á andlitinu með blómin í fanginu þegar ég tók eftir kortinu sem fylgdi þeir. Ég reif það upp og þá var Dóra Lind að senda mömmu sinni blóm og tilefnið? Af því ég hætti að reykja í ágúst og af því að henni þykir vænt um mig. Finnst ykkur þetta ekki fallegt? En svona eru báðar mínar dætur elskulegar og hafa alltaf verið.

Nú er frost á Fróni en yndislegt veður að öðru leiti og ætla ég að fara í ræktina og sund á eftir. Svo ætla ég í gönguferð seinnipartinn. Sjáumst!!