þriðjudagur, mars 14, 2006

Vatnavextir

Það er alveg óborganlegt að fylgjast með umræðum á okkar háa Alþingi um vatnalögin, sem verður víst að breyta vegna þess að þau voru sett árið 1928 en eru í lagi að öðru leyti. Breytingarnar eiga ekki að skerða rétt almennings til frjáls aðgangs að vatni eftir .því sem stjórnarliðar segja en stjórnarandstaðan vill meina að nú eigi að græða á vatninu okkar góða og ef þú getur ekki borgað fyrir vatnið þá verður þú bara vatnslaus! Semsagt þú átt ekki vatnið sem seytlar niður fjallshlíðarnar og ef þú ert í gönguferð og þig þyrstir, svalar þorsta þínum með því að bergja á tæru lindarvatninu, er það trúlega í óleyfi gert. Það eru ekki orðnar margar auðlindirnar sem við Íslendingar eigum sameiginlegar og að mínu áliti er vatnið sjálfsögð mannréttindi hér á landi. Ég er á þeirri skoðun að við eigum ekki að breyta lögum sem eru góð og gild og “breyta engu” eins og stjórnarliðar segja bara af því að þau voru sett snemma á síðustu öld. Svo mikill hiti er í sölum Alþingis út af þessum væntanlegu lagabreytingum að þingmönnum hljóp kapp í kinn og menn stjökuðu hvorir við öðrum. Þeir þyrftu bara að skella sér í kalda sturtu til að kæla sig en sennilega gera þeir það ekki fyrr en skýrist hverjir eiga vatnið góða á Íslandi..........