Kom til Reykjavíkur í gærkvöldi beint úr vinnunni og beint í dýrindis kvöldverð hjá Kristínu og Jónasi. Þau höfðu grillað lambalæri og kartöflur og búið til æðislegt hrásallat. Ég borðaði á mig gat því þetta var svo gott og ég hafði eitthvað lítið borðað. Andri og Sunneva hafa stækkað síðan ég sá þau síðast en það var um áramótin. Höfðum það svo notalegt og spjölluðum fram eftir kvöldi.
Í dag fór ég í Sigurbogann og keypti mér afar röndóttan sundbol. Ég lét ekki þar við sitja og verslaði mér líka hvítar buxur , bol og peysu. Síðan ók ég sem leið lá vestur á Aflagranda til Hildar vinkonu sem ég hitti síðast 2. des. en þá átti hún afmæli. Í dag vorum við bara tvær í rólegheitum og spjölluðum um heima og geyma. Tarrotspilin dregin fram og lögð, svona eins og við vorum vanar að gera meðan ég bjó í Reykjavík. Þetta var alveg yndislegt og ég fann hvað ég hef saknað hennar og Huldu mikið. Þótt ég eigi vinkonur í Hólminum þá eru þær ekki svona nánar mér og Hildur og Hulda hafa ýmislegt brallað með mér í gegn um árin. Síðan fór ég heim til Kristínar og þar sem hún var að setja strýpur í vinkonu sína þá fór ég og Jónas með Sunnevu í fimleika. það var alveg frábært að sjá þessi litlu skott læra undirstöðu fimleikanna bara þriggja ára gamlar og mest að furða hvað þær voru hlýðnar og góðar. Þetta er sem sagt búin að vera mjög notalegur dagur en því miður er hún Dóra Lind mín orðin lasin, sennilega iflúensuskömmin sem er að herja á hana. Vonandi verður hún orðin hressari á morgun. Ég ætla að drífa mig í bólið og fara að sofa, góða nótt.....