föstudagur, september 01, 2006

Mögnuð frammistaða hjá Magna

Mikið held ég að landinn sé ánægður með nýjasta óskabarn sitt. Magni komst áfram í Rockstar sem þýðir að það stefnir í aðra vökunótt á næsta þriðjudag. Ég hugsa að ég leggi það á mig því ég á frí þennan dag og ætla þess vegna að reyna aftur. Ekki fannst okkur heldur leiðinlegt að Olís bauð 13 krónu afslátt af bensini í gær milli 17 og 19 í tilefni þess hvað Magni stóð sig vel og mjög margir nýttu sér að kaupa bensínlíterinn á 112,50 og olíu á 109,50, Magnaður áfsláttur það!! Nú er ferðamannatíminn búinn og mér finnst veturinn vera kominn. Veðurfarið tekur undir það því það snjóaði í fjöllin í fyrrakvöld. það er eiginlega lokin á ferðamennskunni hér að halda veglega dönsku daga og tókust þeir vel að þessu sinni og veðrið lék við Hólmanra þá helgina. En alltaf má af öllu læra og þeir verða ennþá betri næsta sumar. Ég er að prófa mig áfram með að fjaðratína upp í dúnstöð svona í hjáverkum. Þetta er seinleg og sóðaleg vinna en alls ekki leiðinleg. Ég var eins og fiðraður ungi eftir fjaðratínsluna í gær. Það er alltaf gaman að læra eitthvað nýtt og ég ætla skreppa aftur á eftir. Nú eru skólabörnin mætt til okkar í íþróttahúsið eftir sumarið, sólbrún og sælleg og flest jafn óþekk eða stillt og í fyrra vetur, allt eftir því hvert barnið er. Þau verða fljót að skólast til það tekur alltaf nokkrar vikur að ná þeim á rétt ról en þetta eru allt saman góðir og skemmtilegir krakkar. Þau þurfa bara að hafa nóg að starfa. Körfuboltatímabilið er að hefjast og fyrsti leikurinn á helginni. Er spennandi að vita hvernig gengur ´því nú er ekki Bárður lengur með liðið heldur afar viðkunnalegur danskur maður. Konan hans er með honum og hún er menntaður sjúkraþjálfari og ætti það að koma sér vel fyrir bakdeildina. Miklar mannabreytinar verða hjá okkur, búið að ráða inn tvo nýja starfsmenn, þau Gerði og Guðlaug og vonandi stoppa þau eitthvað við. Ekki er samt séð fyrir endann á þessum breytingum því Kristín Ben er að segja upp í dag. Ég á eftir að sakna hennar en hún hættir 1. desember. Hún ætlar að fara að vinna við beitningu og sjómennsku hjá Gesti Hólm. Hún er algjör kjarnorkukvenmaður en hún var orðin leið á vinnunni í íþróttahúsinu enda búin að vera þar í sjö eða átta ár. Vonandi fáum við bara góða mannesku í staðin fyrir hana.