Þá er verslunarmannahelgin yfirstaðin og fólk svona almennt komið heim af útihátíðum. Það var mjög mikið að gera alla helgina í sundlauginni þrátt fyrir óhagstæða veðurspá fyrir Snæfellsnesið. Annars verð ég að segja að veðrið hér í Stykkishólmi var bara mjög gott, hlýtt og logn alla dagana og rigndi bara á laugardeginum. Við fengum meira að segja sólskin í gær. Ég er í fríi í dag og ligg bara í leti yfir EM í frjálsum. Fór í annan golftíman minn í gær kvöldi eftir vinnu og gekk svona upp og ofan að mér fannst. Kennarinn sagði mér að ég væri mjög efnilegur byrjandi en þeir segja það nú örugglega við alla. Mér gekk samt mjög vel að pútta, fékk lengdina á púttunum oftast rétta og setti mörgum sinnum ofan í. Ætla að fara og æfa mig á þeim atriðum sem kennarinn fór yfir í kvöld.
Ég fer síðan í bæinn á fimmtudagskvöldið því Dóra Lind mín er að fara til Aarhus í lýðháskóla fram að áramótum að minnsta kosti og mig langar til að eyða með henni síðasta deginum hér heima. Svo er nú hin árlega “Kofahelgi” í bústaðnum upp við Heklu og ég ætla að fara þangað á laugardeginum eftir að Dóra er farin. Síðan býst ég við að vera vikuna eftir í Reykjavík, fer í æðahnútaaðgerð á mánudaginn og á að taka það rólega fyrstu dagana á eftir. Nú hittist þannig á að “Dönsku dagarnir” okkar Hólmara og “Menningarnótt” í Reykjavík er á sömu helginni og mig langar eiginlega frekar að vera á menningarnótt en ætli ég sjái ekki bara til með það. Ég verð bara að ákveða það seinna. Er ekki skemmtilegt þetta líf elskurnar mínar?