þriðjudagur, ágúst 15, 2006

Dóra komin til Árósa og ég laus við æðahnúta!

Jæja, þá er Dóra mín komin til Árósa með Kristínu Lilja vinkonu sinni. Ég ók henni á völlinn og við byrjuðum í Smáralindinni upp úr 12 á hádegi og fengum okkur að borða. Síðan röltum við um í rólegheitum og fengum okkur svo kaffi á Energia áður en lagt var í hann. Það var samt ansi skondið að þegar ég sótti hana heim var hún með svo risastóra ferðatösku að ég ætlaði ekki að koma henni í skottið á bílnum mínum. Það er nú samt frekar lítið og svo var hún með bakpoka líka ásamt handfarangri. Við vorum komnar á völlin upp úr kl. 15:00 og lentum í þvílíkri biðröð og sem betur fer kom vinkonan fljótlega (með annan eins farangur ef ekki meiri) og gat troðið sér til okkar. Við biðum í rúmann klukkutíma áður en við gátum tékkað þær inn en þá syrti nú verulega í álinn!! Farþegar mega hafa með sér 20 kíló á mann en þegar farangurinn þeirra var viktaður saman þá viktaði hann 77 kíló takk fyrir.
Þær voru sem sagt með samtals 37 kíló í yfirvikt og hvert kíló kostar 550 krónur og þær fölnuðu báðar. En sem betur fer var stúlkan sem tékkaði þær inn þvílíkt almennileg og hjálpsöm að þrátt fyrir að hún átti auðvitað að láta þær borga fullt gjald þá sleppti hún með að borga fyrir 15 kíló saman sem gerði rúmar fjögur þúsund á hvora þeirra og tóku þær aftur gleði sína. En að öðru leiti gekk allt og Sigga hans Sverris mín sótti þær til Billund og ók þeim svo daginn eftir í skólann. Þar voru saman komnir 187 nýnemar og þar af 18 Íslendingar. Það eru bara næstum tíu prósent nýnemanna svo þær hitta greinilega fullt af samlöndum.

Ég tók nokkrar myndir síðasta daginn sem ég var með henni Dóru og birti þær þegar ég kem heim aftur eftir dönsku dagana. Nú er ég nefnilega búin að far í aðgerðina, (fór í gær) og hún gekk mjög vel. Ég var bara fjallhress eftir svæfinguna og var ekki með svo mikla verki í gær. Ég svaf reyndar lítið í nótt en ég ætla að leggja mig þegar Andri Freyr er farinn á fótboltaæfingu.

En svona í lokinn verð ég að segja ykkur frá brasi mínu í flugstöðinni þegar ég ætlaði að borga skammtímabílastæðið í miðavélinni inni. Ég stakk miðanum í raufina eins og fyrir mig var lagt og vélin sagði mér að ég skuldaði hundrað krónur. Jú ég var alveg sátt við það og ætlaði að borga þær veð 500 króna seðli því aldrei þessu vant var ég ekki með neitt klink á mér. En það var alveg sama hvað ég gerði, hvernig ég snéri fjárans seðlinum, vélinn skilaði honum alltaf aftur. Þá var mér bent á að krumpa seðilinn og prófa aftur en það gekk lítið betur. Þá rétti ég fjárans vélinni debitkortið mitt því að er möguleiki líka en það gekk ekki heldur. Ég stóð þarna í öngum mínum og skimaði eftir Cecuritas manninum sem átti að vera þarna til aðstoðar en hann hafði auðvitað gufað upp. Ég átti bara eftir að sparka í vélarskömmina í illsku minni þega yndisleg hjón komu aðvífandi og ætluðu að nota þetta gargan. Þau buðust til að leysa mig úr prísundinni og borga hundrað karlinn fyrir mig sem þau og gerðu. Ég væri þarna eflaust enn en þau hefðu ekki verið svona hjálpleg. Svona eru nú margir hjálpsamir við náungan.