fimmtudagur, júní 15, 2006

Guði sé lof fyrir HM

Ó hvað ég er orðin þreytt á þessari íslensku veðráttu. Ég er alvarlega að hugsa um að flytjast erlendis þegar ég kemst á eftirlaun (ein fyrirhyggjusöm) allavegana á veturna. Annars eru sumrin okkar ekki orðin neitt nema orðin tóm. Mér fannst alltaf gott veður yfir sumartíman þegar ég var krakki á Akranesi og minnist ófárra ferða frá Vesturgötunni á Langasandin þar sem maður flatmagaði allan daginn í sólinni og sjónum. Kannski eru barnsminningarnar bara svona bjartar því þessi tími var svo skemmtilegur. Kannski er fleirum svona farið eins og mér,en núna á þessu augnarbliki þegar ég sit við tölvuna mína rignir eins og vanalega þetta sumar. Ég ætlaði að nota þessa daga sem ég er heima til þess að hvíla mig vel og slappa af í pottunum í sundlauginni en það hefur nú verið lítið gaman að sitja þar í rigningu og roki. Ég þakka bara fyrir að geta haft mér það til afþreyingar að horfa á fótbolta sem ég hef brennandi áhuga á. Ekki fer ég í golf ennþá en ætla mér nú samt að fara að minnsta kosti einu sinni í sumar. Ég vona bara að það stytti upp áður en ég verð mosavaxin yfir fótboltanum því það væri góð tilbreyting að gera fleira en að horfa á sjónvarpið í frístundum.