Þetta er ömmubarnið hún Karen Harpa
Ekkert smá falleg stelpaOg þarna er hún með eitthvað gott!
Læt fylgja myndir af barnabarni mínu sem þekkir mig ekki sem ömmu sína, grátlegt en satt. Ég skoðaði heimasíðuna hennar á Barnalandi og sá að minnst var á margar ömmur í dagbókinni hennar. Þar var ég ekki með og fannst mér það mjög sárt. Í dagbókinni var talað um skírn hennar og að langamma og amma í sveitinni hefðu verið skírnarvottar sem er alveg rétt en ég var líka skírnarvottur hennar og mætti með Rúnari föður hennar, ein af hans fjölskyldu en það greinilega"gleymdist" að tala um það. Nú er ég búin að ákveða að þar sem barnið ætti svo margar ömmur og gæti varla þverfótað fyrir þeim að ég skyldi bara draga mig í hlé. Mér finnst einhvernvegin að það sér best fyrir alla. En myndirnar af henni eru perlur og dýrgripir sem ég mun alltaf geyma og ég Þakka mömmu hennar af alhug fyrir að senda mér slóðina inn á heimasíðu hennar. Dísa mín, takk fyrir.
Úr vinnunni er það að frétta að dúkarinn mætti á staðinn í gær og byrjaði að eyðileggja búningsklefa karla!! Það er gjörsamlega allt í rúst hjá okkur í sundlauginni, og fyrir ykkur sem ekki skiljið þetta þá eru málavextir þeir að það er verið að laga búningsklefana hjá okkur sem ekki var vanþörf á. Eggert dúkari ákvað að taka karlaklefan fyrir fyrst og nú vísum við öllum karlmönnum sem mæta í sund niður í búningsklefa íþróttahússins. Það er svo sem ekkert að því, öll aðstaða er til staðar en vandamálið er að karlmennirnir verða að koma upp aftur og labba á baðfötunum í gegn um afgreiðsluna hjá okkur (úhhúúúlala gaman gaman fyrir okkur konurnar) og þaðan úr í laug. Við útskýrum þetta ástand auðvitað kurteislega áður en þeir borga sig inn svo þeir geti ráðið hvort þeim finnst þetta á sig leggjandi. Það verður að segja þessum elskum það til hróss að þeir taka þessu af stakri rósemi og brosa að vandræðagangi okkar. Aðeins tveir snéru frá og það fannst mér leiðinlegt því annar var fullorðinn maður úr Grundarfirði sem kemur mjög oft til okkar þegar hann er búinn að versla í Bónus. En svona verður þetta í mánuð og það er frekar mikið ryk sem fylgir þessu. Ég á kvöldvaktina í kvöld og morgunvakt á morgun og síðan er ég farin í frí til London. Kem ekki aftur heim fyrr en 7. maí svo hafið þið það gott þangað til ef ég kemst ekki í tölvu.