Ég vaknaði kl 6:30 í gærmorgun við sólina sem skein inn um gluggan á svefnherberginu, og þrátt fyrir myrkvunartjöld var skellibjart og ég gat ekki með nokkru móti sofnað aftur. Fór bara fram og hitaði mér kaffi og var eitthvað að dunda mér við að lesa blöðin. Úti var besta veður "lengi", en dálítið kalt. Ég hitti Erlu fyrir utan sundlaugina kl. níu og við fórum okkar klukkutíma morgunrúnt og fengum okkur kaffi í bakaleiðinni hjá Nesbrauði. Þegar við höfðum lokið við kaffið var farið í sund. Við byrjuðum í heita pottinum, færðum okkur síðan í vaðlaugina og síðan var synt aðeins. Ég er að byrja aftur á að synda skriðsund og bakskrið, finn að lungnaþolið hefur batnað verulega síðan ég hætti að reykja. Já, vel á minnst, ég á níu mánaða reykleysisafmæli eftir fjóra daga!!! Ég lá svo í sólbaði í vaðlauginni til kl. hálf tvö í gær og þegar ég kom heim var Friðrik einmitt að rjúka af stað út í eyjar. Fyrsta ferðin í Eyjarnar staðreynd og þá er pottþétt komið vor. Dóra Lind kom um hálf fimmleitið og við skruppum rúnt í Grundarfjörð í veðurblíðunni. Ég fór og fékk mér kaffi hjá Árna og Maju. Þegar við komum heim aftur nennti ég ekki að elda og við Dóra hringdum á Drífu sem var kófsveitt upp á spítala við próflestur og spurðum hvort hún vildi ekki borða með okkur á Narfeyrarstofu. Hún var til í það og við höfðum það æðislega gott og borðuðum góða hamborgara með öllu tilheyrandi. Síðan voru teknir nokkrir rúntar og farið síðan heim að "hygge sig" Nú að morgni föstudagsins langa er veðrið aftur á móti ekki jafn gott, stíf austanátt og eins stigs frost. Ég ætla samt að hitta Erlu klukkan níu en hvort við göngum mikið verður bara að koma í ljós. Ég er hálf eftir mig síðan í gær og væri alveg til í að taka það bara rólega. Í kvöld ætla ég að keyra Dóru Lind í Grundarfjörð því hún ætlar á ball með Sixties. Svo er það vinnan á morgun og þá er páskafríið búið hjá mér.