miðvikudagur, janúar 11, 2006

Skrauta frá Skarði

Ég komst að því í gær að ég á allt of mikið af jólaskrauti!! Ég byrjaði að taka glingrið miður og setja í kassa og ég er búin að fylla fjóra stóra kassa bara með því sem var í gluggum og á hillum og borðum hjá mér og þá á ég jólatrésskrautið eftir. Það er svo skrýtið að fyrir hver einustu jól sér maður svo eitthvað sem maður verður endilega að eignast, algjört must, og svo þegar kemur að því að finna því stað þá vandast nú málið. Ég er nú kannski dálítið skrautglöð en það hefur nú enginn kvartað enn.

Ég má til að monta mig aðeins, fór á vigtina og eitt kíló farið. Er afar ánægð með það og það stappar í mig stálinu að gefast ekki upp í ræktinni. Ég var nefnilega að hugsa um hvort þetta væri ekki of geist af stað farið og svo gengi ekkert. Eitt prik fyrir mig!!!

Nú hefur það gerst að vegna sorpfréttablaðamennsku DV hefur ólánsamur maður tekið líf sitt því hann gat ekki horfst í augu við ásakanir blaðamanna þessa sorprits sem DV er. Skyldu þeir Mikael Torfason og Eiríkur hafa sofið í nótt, eða eru þessir menn alveg gjörsamlega samviskulausir? Það verður vonandi hægt með einhverjum ráðum að koma í veg fyrir svona óábyrga blaðamennsku, því ég hélt að réttarkerfi okkar gerði ráð fyrir að fólk teldist saklaust uns sekt þess væri sönnuð.