fimmtudagur, janúar 12, 2006

Helgarfrí

Eins og við var að búast ullu skrif DV slíku fjaðrafoki að umræðurnar um siðleysi skrifanna náðu inn á þingpalla og flestir í samfélagi okkar fordæma gjörðir ritstjóra og blaðamanna DV. Þessi blaðamennska tíðkast kannski erlendis í milljóna samfélögum en á litla Íslandi gengur þetta ekki að mínu áliti. Þetta er gert til að selja blaðið frekar og ég legg til að við íslendingar sem ekki viljum líða svona sorpblaðamennsku tökum okkur nú saman og hættum að kaupa þennan fréttamiðil. Einmitt vegna þess hve fá við erum gætum við einmitt sýnt samstöðu okkar í verki á þennan hátt. Því miður erum við svo fljót að gleyma að eftir mánuð eða svo er þessi vesalings maður flestum gleymdur og þá mun DV bara snúa sér að því að sverta næsta mann.

En nóg um þetta. Nú er ég komin í helgarfrí og ætla að nota það vel. Ég nenni ekki til Reykjavíkur með manninum um helgina en ætla að þrífa og taka til hendinni heima. Annars byrjaði dagurinn hjá mér á því að ég festi bílinn minn á Aðalgötunni kl 6:30 í morgun og var í þrjú korter að moka hann upp og kom of seint í vinnuna, nokkuð sem ég þoli ekki hvorki að sjálfri mér eða öðrum. Það er hreinlega allt á kafi hér í snjó og börnin eru alsæl með það......