Hvað haldið þið? Í dag þegar ég var að fara í vinnuna voru teikn á lofti. Einhver ægifagur kringlóttur skærgulur hlutur hátt á lofti og allt var svo bjart og fallegt í logninu. Jú ég sagði “í logninu”, því það var logn og blíða og þetta “gula fyrirbæri” var röðullinn sem við höfum ekki séð svo lengi að það lá við að ég þekkti hann ekki. Það lyftist aldeilis brúnin á fólki og allir töluðu um hve gott veðrið væri og hve gaman væri að sjá sólina. Ég hef oft velt því fyrir mér að ef veðrið væri ekki svona umhleypingarsamt hjá okkur, hvað hefðum við þá til að tala um við Pétur og Pál svona almennt, því allir geta jú talað um veðrið.
Í íþróttahúsinu var mikið um að vera í kvöld því ÍR-ingar komu í heimsókn til að spila körfubolta við Snæfell. Snæfell hafði tveggja stiga forskot á ÍR-inga fyrir leikinn, sem var æsispennandi frá upphafi til enda. Þegar upp var staðið þá vann liðið sem vildi “meira” vinna og því miður fyrir okkur heimamenn þá voru það ÍR-ingar sem unnu með eins stigs mun 73-72. Svona er körfuboltinn og “strákarnir okkar” gera bara betur næst!! Næsti leikur er gegn Njarðvík í deildarbikarnum á sunnudagskvöld, og áfram Snæfell !
Á morgunn byrjar Þorri og allar konur sem eiga eiginmenn, unnusta, nú eða vini munu vilja gleðja þá með einhverju móti. Ég er svo heppinn að bóndinn minn kemur heim á morgun eftir sex daga útlegð í Reykjavík og mun ég að sjálfsögðu reyna að gleðja hann á einhvern óvæntan máta. Hann frábiður sér blóm, er ekki hrifinn af afskornum blómun en hefur alveg einstakt lag á að láta kaktusa vaxa og dafna. Kannski gef ég honum kaktus í safnið, hver veit, en ykkur “bændum” þessa lands, óska ég til hamingju með morgundaginn!!