Ég má til að halda áfram að tala um snjóinn og ófærðina hér í Hólminum. Nú er svo komið að í dag snjóaði svo mikið að aumingja bæjarstarfsmennirnir höfðu ekki undan að ryðja snjóinn af götunum svo hér væri nokkurn veginn fólksbílafært. Það fennir jafnóðum allt á kaf og þið getið kannski ímyndað ykkur tilburði mína við að komast heim til mín, upp þessa skelfilegu brekku sem liggur að húsinu. Ég reyni orðið að aka Skúlagötuna í austur og Aðalgötuna til baka í vestur og fara síðan upp brekkuna á ferðinni. Það hefur gengið hingað til nema þegar einkver kemur akandi Aðalgötuna í austur þá verð ég að hægja á mér (á ekki réttinn) og byrja svo upp á nýtt. Ég er nú farin að hafa lúmskt gaman af öllu þessu tilstandi og svo er ég líka orðin skotfljót með skófluna. Það voru mikil hraustmenni (bæði konur og karlar) sem létu sig hafa það að skella sér í sund eins og venjulega þennan morguninn því laugin var aðeins 24 gráður. Vindkælingin er svo mikil að hún nær ekki að hitna meira og fólk var almennt fljótara með vegalengdirnar sínar og dvaldi lengur í pottunum.
Ég má til með að monta mig pínulítið, ég hef verið svo dugleg í ræktinni (og í mokstrinum) að fötin mín eru heldur rýmri en vanalega, jibbíiiiiiiiiiiiiiiiiii