Vetur konungur hefur heldur betur minnt á sig undanfarna daga. Hér er allt á kafi í snjó og held ég að flestum finnist nóg um nema kannski börnunum sem bylta sér alsæl í snjónum og koma svo eins og snjókarlar og snjókerlingar inn í íþróttahús til að halda áfram að ólmast í sundi eða öðrum íþróttum. Ég sem ek um á mínum fjalla-Polo, sá mitt óvænna og keypti mér sérstaka “bílskóflu” því ég var endalaust að festa mig út um allan bæ og ekki dugir að stóla á að næsti bíll geti alltaf bjargað manni úr ógöngunum. Ég er sem sagt búin að moka mig fjórum sinnum lausa síðan í morgun. Þetta er ágætis viðbót við ræktina og sundið og alveg ókeypis líkamsrækt en dálítið kalsamt í hörkufrosti og snjóbyl. Verð trúlega að moka bílinn lausan einu sinni enn því ég á að mæta í vinnu eftir tæpan klukkutíma.
Helgin var annars mjög skemmtileg, bauð manninum út að borða í félagsskap Lionsmanna og kvenna og var maturinn mjög góður og skemmtidagskrá undir borðum. Sem sagt mjög vel heppnað kvöld. Eitthvað sló þetta samt eftir sig, ég var eiginlega hálf heilsulaus fram eftir gærdeginum en eigum við nú ekki samt að segja að þett hafi verið þess virði.........