Aðfangadagur jóla var afskaplega notalegur, ég fór að vinna kl.10:00 og það fylltist fljótt af fólki sem kom í aftressun í pottana. Margir af mínum uppáhaldskúnnum létu sjá sig og fólk greinilega naut þess að vera saman og eiga notalega stund með fjölskyldu og vinum. Ég var komin heim rúmlega hálf eitt og þá tók við undirbúningur fyrir jólamatinn . Í þetta skipti ætluðum við að hafa hamborgarahrygg með heimalöguðu rauðkáli og sykurbrúnuðum kartöflum ásamt Waldorfssallati og þetta kallaði á heilmikinn undirbúning. Drífa kom heim þessi jólin og það var strax jólalegra að vera ekki bara tvö ein, þótt okkur hafi nú ekki leiðst mikið í fyrra. Á slaginu klukkan 18:00 eftir að jólin höfðu verið hringd inn settumst við til borðs og borðuðum í rólegheitum. Maturinn var mjög góður og við vorum ekkert að flýta okkur. tókum síðan uppjólagjafirnar í rólegheitum og Drífa las á pakkana. Seinna um kvöldið keyrðum við Drífu til Erlu og Sigga því þær systur ætluðu í miðnæturmessu hjá nunnunum. Best af öllu var svo að skríða með bók upp í rúm og lesa þangað til maður sofnaði út frá bókinni.
Jóladagurinn var alger letidagur, ég dúllaði mér á náttfötunum allan daginn við að horfa á sjónvarpið, lesa og lúra. Ég varð auðvitað að borða á milli þessa erfiðis eins og gefur að skilja. Erla, Siggi og börn, kíktu við hjá okkur á leiðinni heim út jólaboði og var setið og spjallað í rólegheitum. Þau buðu okkur í mat á annan í jólum ( í kvöld) og ég hlakka til að borða "önd a la Siggi", hann er listagóður kokkur.
Jæja þá erum við komin heim aftur eftir að hafa borðað önd hjá Sigga og Erlu nammi namm, ætla að gera eina tilraun enn að setja inn mynd, er að verða brjáluð á þessum server sem virkar ekki nema stundum !!!
Ekki gekk að setja inn myndina, reyni aftur seinna.