Þá er helgin liðin og aftur kominn mánudagur. Hafið þið tekið eftir því hvað tíminn líður fljótt? Ég man eftir því þegar ég var lítil og beið full af tilhlökkun eftir jólunum að mér fannst tíminn svo hræðilega lengi að líða og jólin ætluðu aldrei að koma. Heima hjá mér var aldrei skreytt fyrr en á Þorláksmessu og við fengum að hjálpa til við það við systurnar en jólatréið skreytti hún mamma mín alltaf eftir að við vorum sofnaðar og svo var stofunni læst og hún ekki opnuð fyrr en klukkan sex á Aðfangadagskvöld. Þá stóð jólatréið ljósum prýtt og fallega skreyt með jólagjöfum raðað í kring. Ég man enn hátíðleikan sem umvafði bernskujólin og ég hef ekki fundið í slíkum mæli eftir að ég fullorðnaðist. Þessi jólin hjá mér verða öðruvísi vegna þess að nú er hún mamma mín ekki lengur á meðal okkar. En ég veit og trúi því að henni líði vel og sé umvafin löngu gengnum ástvinum. En ég syrgi hana sárt og hugsa mikið til hennar einmitt núna um jólin því hún var mikið jólabarn í sér og lagði sig fram um að gleðja aðra. Ég veit líka að jólin koma til okkar hvar sem við erum stödd, hvort sem við erum í þessari jarðvist eða annarri........