laugardagur, desember 17, 2005
Hvít eða rauð?
Nú þegar vika er til jóla er þvílíkt myrkur úti að varla sér handa skil. Ég held að það sé aðallega þessvegna sem fólk finnur hjá sér þörf til að skreyta hús sín bæði úti og inni með ljósum. Sumstaðar er kannski full mikið af því góða og annars staðar er skreytingunum nánast hent upp en allt þjónar þetta þeim tilgangi að lýsa upp umhverfið og reka burt svartasta skammdegið. Ég er svoddan "Skrauta frá Skarði" að mér finnst þetta yndislegt. Hugsið ykkur bara eftir fjóra daga byrjar daginn að lengja, fyrst mjög hægt og svo hraðar og hraðar og fyrr en varir er komið vor. Ég hlakka svo til vorsins, sjá allt vakna til lífsins, farfuglarnir koma og þrestirnir gera sig heimakomna í þakkantinum. Ég get varla beðið því mér finnst veturinn hafa verið dimmari en undanfarin ár. Kannski er það bara að það hefur varla sést snjór því það birtir óneitanlega yfir öllu þegar hvít mjöllin þekur jörðina. Veðurfræðingar spá rauðum jólun þetta árið og líkurnar eru sennilega meiri á því. Samt er ekki öll nótt úti enn og aldrei að vita að þegar við höfum sporðrennt skötunni hjá honum Summa á Þorláksmessukvöld að þá fari að snjóa og jólin verði þrátt fyrir allt alhvít.