laugardagur, október 28, 2006

Skammdegi

Svei mér þá mér fannst varla birta almennilega í gær. Það var rigning og þungskýjað og ekki orðið vel bjart fyrr en kl. 10:30 og byrjað að skyggja aftur klukkan hálf fimm síðdegis. Við erum sem sagt að sigla inn í svartasta skammdegið. Það er kominn ekta kertatími og svei mér þá af því að ég ætla að baka smákökurnar eftir mánaðarmótin þá mundi ég setja jóladisk í geislaspilarann ef hann væri á staðnum. Græjurnar mínar fóru upp í sumarbústað í sumar, og það á að fjárfesta í nýjum. Þær koma með Óla og Sólrúnu þegar við förum að borða á Narfeyrarstofu í byrjun desember. Þá get ég vonandi spilað alla geisladiskana sem mér hafa áskotnast og ekki getað spilað því hinn var orðinn svo lélegur að hann tók ekki nema einn og einn disk. Ég veit fátt betra á þessum árstíma en að sitja í rólegheitum yfir kertaljósi og rauðvínsglasi og hlusta á ljúfa músík. Kúra mig helst undir teppi og slaka vel á. Yndislegt!!
 
Það verður langur dagur hjá mér í vinnunni í dag. Fjölliðamót í minibolta og körfuboltaleikur hjá Mostra. Það koma ein sex lið í heimsókn og það verður eflaust mikið fjör. Þetta stendur yfir til sex í kvöld og þá kemur meistaraflokkur á æfingu. Það þar einhver að vera í húsinu á meðan og ég tók það að mér. Ég get dundað mér við að þrífa neðri hæðina á meðan svo mér leiðist ekki en þeir verða alveg til 22:30 að klára sig af því að fara í sturtu. Þeir (meistaraflokkur) ganga undir því skemmtilega nafni hjá okkur starfsfólkinu í íþróttamiðstöðinni "hreindýrin" því þeir eru verstu sóðar sem ég þekki og ganga um klefana eins og þeir hafi ekki hugmynd um að  til sé eitthvað sem heitir snyrtimennska. Ótrúlegt.
 
En dagurinn hjá mér byrjar í einkaþjálfun kl. 9:00 með Gerði og Guðlaugu. Síðasti tími var góður eins og vant er og ég hlýt að vera gera eitthvað að viti miðað við harðsperrurnar sem ég fæ alltaf. Róbert er laginn við að breyta æfingunum okkar þannig að ég allavegana er alltaf með harðsperrur. Verst er að ég hef ekkert lést frekar og það var nú aðaltilgangurinn. Mér finnst ég ekki vera borða "neitt" eins og allir sem eru í mínum sporum segja við sjálfan sig en eitthvað geri ég rangt því "þú ert það sem þú étur" stendur einhversstaðar skrifað!!
 
Í lokin vil ég aðeins tjá mig um efnahagskerfið og hagkerfið okkar. Mikið kemur vel í ljós hvað við Íslendingar erum smáir og hvað þetta velferðarkerfi okkar stendur á miklum brauðfótum þegar frétt frá hinu danska Ekstrabladet getur talað niður gengið okkar um eitt og hálft prósent í gær. Ég ætla að ekki að hafa skoðun á því hvort Danir séu svona öfundsjúkir út í hvað íslenskum fjármálamönnum og fyrirtækjum hefur gengið vel eða, eins og þeir (Danir) vilja meina að þetta séu svik og prettir sem ná alla leið til Afríku, þá finnst mér samt það lýsa þessari svokölluðu hagsæld okkar íslendinga best þegar "danskir" blaðamenn geta valdið svona sveiflu á hlutabréfum okkar og gengi.