Nú eru dagarnir að taka á sig sína venjubundnu mynd og ég fell í þessa rútínu mína sem mér finnst þrátt fyrir allt svo skemmtilegt. Það var mjög gaman að koma aftur í vinnuna og finna að börnin í íþróttahúsinu fögnuðu mér "gribbunnar" einlæglega. Vinnufélagarnir jafn elskulegir og alltaf og allt svo tandurhreint og fínt að hægt var að spegla sig í öllum gólfum. Það kemur alltaf maður í manns stað og tvær úrvalskonur eru byrjaðar og þótt ég sé ekki búin að vinna í íþróttahúsinu lengi þá telst ég samt með einna lengstan starfsaldur þar. Einhvernvegin hafa alltaf verið ör mannaskipti og fólk endist ekki lengi. Ég er samt að vona að það breytist og við fáum að hafa áfram þá sem þar eru núna.
En í kvöld eldaði ég fiskisúpu og Erla og krakkarnir komu í mat. Einnig kom Jón Örn í stutta heimsókn og það var nú aðalástæða þess að ég rauk til að elda fiskisúpuna eftir uppskrift sem ég fékk frá fyrrverandi eiginmanni Huldu vinkonu. Ég má til að láta þessar myndir fylgja til að sýna ykkur stemminguna hjá okkur. Erla skrapp á fund í klukkutíma og krakkarnir héldu okkur selskap á meðan.



