Það er ekki ofsögum sagt að andstæðurnar í veðurfarinu eru ótrúlegar! Hér brast á brakandi blíða á mánudaginn sem ekkert lát virðist á ennþá (sem betur fer) og veðurfræðingar brosa út undir eyru og spá þessum "ósköpum fram í næstu viku" alveg án þess að roðna. Ég nýt þess út í ystu æsar að vera í fríi og vera "bara" heima hjá mér. Ég er búin að halda til í sundlauginni á milli þess sem ég prufukeyri nýja farskjótan minn sem er Moongoos cityhjól af bestu gerð.
Ég verð nú samt að játa það fyrir ykkur að ég er hálfóstyrk ennþá á hjólinu og er ekki nægilega lagin við að skipta upp og niður eftir aðstæðum. Allt veltur þetta á æfingunni og ég ætla ekki að segja ykkur hvað ég verð orðin flink í haust. Stefni á Tour de France næsta sumar ef ég stend við fögru fyrirheitin sem ég gaf sjálfri mér.
Í dag byrjaði vikan okkar Friðriks úti í Hvallátrum. Þangað fjölmenntu þeir sem vettlingi gátu valdið og þeir voru bara nokkuð margir. Jón Örn kom beint af stofunni á Akranesi, Gerða, Sindri, Seimur Snærós og vinkona hennar komu úr Reykjavík og svo kom Imma vinkona Gerðu líka. Arna, Hjálmar og dætur voru þegar komnar út í Hvallátur en Erla, Siggi, og börn fara þangað á mánudaginn. Þá er Drífa sú eina af krökkunum hans Friðriks sem ekki kemst Ég fer út í Hvallátur á þriðjudaginn því á mánudagskvöldið ætla ég í golftíma, þann fyrsta síðan ég fékk golfgræjurnar. Ég lét undan fjölda áskorana og dreif í að panta tíma áður en græjurnar mínar kæmust úr tísku hahaha..
Í fyrramálið fer ég til Hellisands því það á að skíra Victor Mána, litla(stóra) barnabarnið mitt sem býr í Horsens í Danmörku. Foreldrarnir eru á landinu sem stendur og vildu nota tækifærið á meðan þau stoppa og drífa í þessu áður en stráksi væri farinn að geta sagt nafnið sitt sjálfur. Það getur oft verið erfitt að ná fólki saman á hásumarfrístíman en gekk þó vonum framar. Ég var beðin um að vera skírnarvottur og það finnst mér sérstaklega vænt um. En læt þetta nægja í bili og vona að þið eigið öll ánægjulega helgi.