miðvikudagur, júní 07, 2006

Og himnarnir opnuðust og það RIGNDI

Þá er ég komin úr Reykjavík aftur og fór beint á kvöldvakt. Heilmikið að gera í kvöld þótt það rigndi eins og hellt væri úr fötu fram eftir kvöldi. Um níu leytið stytti upp og sólin braust fram úr skýjaþykkninu og allt varð svo bjart og tandurhreint. Þegar ég fór heim þá var loftið þrungið gróðurilmi og allir spörfuglarnir sungu hástöfum í gleði sinni. Það er svo ólýsanlega og yndislega fallegt hér í Stykkishólmi og sólarlagið er engu líkt. Hefði gjarnan vilja vera úti í Hvallátrum því á kvöldum sem þessum er ennþá fallegra þar en hér þótt ótrúlegt sé. Kyrrðið er slík að stundum verður fuglasöngrinn að ærandi hávaða. En það verður að bíða betri tíma, og ég stefni að því að komast þangað aðra helgi og næ þá vonandi seinni leitum. Fyrri leit lauk í gær og var dúnninn mjög blautur. En nú er mál að hætta og fara að hvíla sig. Góða nótt.