miðvikudagur, maí 31, 2006

Síðasti dagur Rabba í sundlauginni

Þessi dagur var með skemmtilegti dögum sem ég hef upplifað í vinnunni! Sundlaugin var lokuð í dag, því hleypt var út henni í nótt og við mættum öll klukkan 8 í morgun að þrífa. Vopnuð skrúbbum og vatnsslöngum réðumst við til atlögu og skrúbbuðum og sprautuðum eins og við ættum lífið að leysa. Veðurguðirnir ákváðu að aðstoða okkur því það rigndi eins og hellt væri úr fötu. Allir voru orðnir gegnblautir og örþreyttir þegar þessu lauk, en þetta var rosalegt fjör.

Í kvöld ætlum við svo að fara saman á Narfeyrarstofu og kveðja Rabba sem hættir með stæl í dag eftir ja ég veit svei mér ekki hvað mörg ár en þau eru vel yfir 20. Hann er kominn á aldur og hans verður sárt saknað af okkur samstarfsfólkinu. Ég veit svei mér ekki hvort sundlaugin getir hreinlega virkað eftir að hann er farinn. Ætla að skella mér í heitt bað til að ná úr mér kuldahrollinum og leggja mig áður en mæting er í matinn.