Í dag er sumardagurinn fyrsti og þá finnst börnunum óhætt að fara að leika sér í stuttbuxum og stuttermabolum alveg óháð hitastigi. Veturinn kvaddi okkur með blíðskaparveðri en köldu og það fraus saman sumar og vetur hér sem þjóðtrúinn segir að boði gott sumar. Og það byrjar sannarlega vel. Glampandi sól, logn og ekki skýhnoðri á himni en svalt. Það vitnaðist á síðasta degi vetrarins að Bárður Eyþórsson, hinn frábæri þjálfari Snæfells í körfubolta er hættur og er að fara að þjálfa ÍR næsta vetur. Urðu heitar umræður í öllum kaffistofum bæjarins og í öllum skotum íþróttahússins og sitt sýndist hverjum. Er mikil eftirsjá í Bárði því hann hefur náð frábærum árangri með meistaraflokkinn. En auðvita verðum við að virða hans ákvörðun, því þetta er jú allt spurning um að geta framfleytt sér og sínum á því sem maður er að gera og hann fékk einfaldlega betra boð frá ÍR sem sýnir hvaða álit menn hafa á honum í þessum bransa. Ég óska Bárði til hamingju og vona að honum farnist vel hjá ÍR.
En það kemur alltaf maður í manns stað og við mætum tvíefld með frábæra unga stráka næsta vetur og vonandi fáum við góðan þjálvara. En ég er að fara að vinna og óska ykkur gleðislegs sumars með þökk fyrir veturinn.