sunnudagur, janúar 01, 2006

Annáll ársins 2005



Nú eftir um það tæplega 15 tíma hefur árið 2005 runnið sitt skeið og nýtt ár tekur við. Árið 2006. Við tímamót sem þessi er við hæfi að líta aðeins til baka og rifja upp liðið ár, þannig að Sandskrifin mín verða nokkurskonar annáll á léttu nótunum. Það er af svo morgu að taka að ég veit ekki hvar ég á að byrja og stikla því bara á stóru. Þetta ár hefur fært mér bæði mikla gleði og einnig mikla sorg. Yngsta dóttirin útskrifaðist sem stúdent með láði og eins systursonur minn hann Hermann Elí. Voru mikil veisluhöld því samfara sem stóðu í tvo daga. (tvær veislur hvor sinn daginn). Það var virkilega mikil ánægja að gleðjast með fjölskyldu og vinum og það eina sem skyggði á var að hún mamma mín var svo mikið veik að hún komst ekki. Einnig var elsti sonurinn og fjölskylda hans ekki með okkur þar sem hann sat á skólabekk í Danmörku. Í byrjun ágúst versnaði mömmu minni mikið og var ljóst í hvað stefndi. Hún lést svo þann 29. ágúst eftir erfitt dauðastríð. Það breytist margt þegar fólk missir foreldra sína, sem hafa verið kjölfesta þess frá blautu barnsbeini og finn ég til nikils saknaðar og trega. Við Friðrik fórum til San Francisco seinnipartinn i september og það var virkilega skemmtileg ferð. Hann var reyndar á námskeiðum líka en ég lét mér ekki leiðast á meðan heldur skoðaði mig um á eigin spýtur. Þetta er borg full af andstæðum og ég gæti vel hugsað mér að fara þangað aftur. Ég fékk nýtt barnabarn í endaðan september og dreif mig til danmerkur til að skoða það. Þetta er allrafallegasti strákur, stór og heilbrigður. Það sem er sennilegast minnisstæðast úr þjóðmálunum er útrás íslenskra fyrirtækja sem virðast ekki vita aura sinna tal og eru að kaupa upp fyrirtæki bæði í Bretlandi og Danmörku. Svo hætti Davíð afskipti af stjórnmálum og stýrir nú Seðlabankanum og kannski hafa stýrivextir hækkað meira bara við að hann kom þangað í vinnu. Svo finnst mér hræðilegt að í allri þessari velmegun eru sumir hópar í þjóðfélaginu svo illa staddir að þeir eiga hvergi heima og ungir eiturlyfjaneytindur finnast látnir af ofneyslu og gamalt fólk er svo eitt að það liggur dáið í á þriðju viku áður en einhver athugar með það. Væri nú ekki ráð fyrir stjórnvöld að láta launahækkunina sem þau fengu renna til þessara hópa og vinna í þessum málaflokkum af einhverri afvöru. Svo vil ég nota tækifærið og óska samstarfsfólki mínu og gestum Íþróttamiðstöðvarinnar gæfu og gengis á nýja árinu og hlakka til að hitta ykkur eftir áramótin. Bloggurum og öðrum velunnurum þakka ég skrifin og commentin á árinu.